Velja þarf varahluti vel
26.11.2010
Á Íslandi stendur bændum til boða fjölbreytt úrval af varahlutum, bæði sk. orginal varahlutum og einnig öðrum staðgönguvörum. Oft eru staðgönguvörurnar afar góðar en á því eru undantekningar eins og neðangreint dæmi frá þjónustuverkstæði Vélfangs sýnir. Um var að ræða olíusíu sem ekki var frá framleiðanda dráttarvélarinnar sem um ræddi og munaði miklu á gæðum sk. orginal síu og
hinnar síunnar.
Olíusíur eru gerðar úr sérstökum pappír sem olían flæðir og um hreinsast um leið. Séu gæði pappírsins ekki nógu góð límast börðin saman eins og sjá má á meðfylgjandi mynd (með því að smella á myndina má sjá hana í betri upplausn). Þegar það gerist minnkar flatarmál síunnar töluvert og olíuflæðið í gegnum síuna einnig.
Þegar vél er undir álagi getur því verið mikill munur á smurþrýstingi viðkomandi vélar, eftir gæðum smursíunnar. Í umræddu tilfelli var smurþrýstingur í hægagangi 0,8 bör með „óorginal“ smursíu en við það eitt að setja sk. orginal síu í þá jókst þrýstingurinn upp í 2 bör. Sá munur er gríðarlegur og hefur mikil áhrif á endingu vélarhluta sem stóla á olíu s.s. sveifarás, túrbína ofl.
Ástæða er til þess að hvetja bændur til þess að vanda mjög val á varahlutum, enda getur það reynst afar dýrt þegar upp er staðið ef um gallaða staðgönguvöru er að ræða.