Beint í efni

Vel heppnaðir fundir kúabænda á Suðurlandi

28.04.2022

Félag kúabænda á Suðurlandi hélt fundi í gær með félagsráði félags kúabænda og í framhaldinu var fulltrúum BÍ boðið á opinn fund í Hvolnum á Hvolsvelli. Efni fundanna var margvíslegt eins og greiðslumark mjólkur, búvörusamninga, rekstrarstöður greinarinnar ásamt starf BÍ í þágu bænda í nýju félagskerfi.

Í Félagsráði félags kúabænda á Suðurlandi sitja 18 kjörnir fulltrúar úr félagi kúabænda á Suðurlandi en á fundi með þeim var mest rætt um greiðslumark mjólkur, búvörusamninga og rekstrarstöður greinarinnar. Efni opna fundarins með fulltrúum frá Bændasamtökunum var starf BÍ í þágu bænda í nýju félagskerfi og var fundurinn afar vel heppnaður, fróðlegur og skemmtilegur. 


Afkoma og nýliðun

Ýmis mál komu upp á opna fundinum og bar þar hæst afkoma kúa- og nautakjötsbúskaparins. Einnig var rætt um áhyggjur bænda af framleiðsluvilja stéttarinnar en afkoman hefur farið versnandi á sama tíma og kvaðir aukast. Í kjölfarið voru fundargestir upplýstir um hvað samtökin væru og ætla að gera til að koma í veg fyrir skort á aðföngum.

Nýliðun í landbúnaði var einnig umfjöllunarefni ásamt nýliðunarstuðningi og skattaumhverfi í kringum þá framkvæmd. Fjallað var um mikilvægi þess að finna það út hvaða leiðir séu bestar í þeim málum og fræða bændur um þá leið. Merkingar á nautgripum og tryggingarmál báru einnig á góma en starfshópur um þau eiga að skila vinnu sinni á næstu vikum.

Skýr vilji bænda á fundinum var að þeir vilja sjá aukið fræðslustarf, efla þurfi rannsóknir, fræðslu og þróunarstarf í greininni. Bændur nýttu tækifærið vel á fundinum til að fræðast um starf BÍ, að hvaða málum sé verið að vinna og hvernig önnur standa.