Beint í efni

Vel heppnað málþing um framtíð mjólkurframleiðslunnar

06.02.2008

Hátt í 100 gestir sóttu vel heppnað málþing Landssambands kúabænda, „Íslensk mjólkurframleiðsla árið 2020“ sem haldið var á Hótel Loftleiðum síðastliðinn föstudag. Málþinginu hafa verið gerð ágæt skil í fjölmiðlum, sérstaklega Morgunblaðinu.   

Jafet Ólafsson var fyrsti frummælandinn á málþinginu. Erindi hans bar nafnið „Samkeppnin um fjármagnið og landið“. Í því kom fram að framtíðarhorfur í landbúnaði væru bjartar, eftirspurn eftir mjólkurvörum færi ört vaxandi í heiminum, þar sem sífellt stærri hópar fólks í austurlöndum fjær tæki upp vestræna lifnaðar- og neysluhætti. Sú staðreynd leiddi af sér hærra verð á afurðunum, eins og m.a. hefur komið fram í grein í tímaritinu Economist, Food prices – cheap no more.  Hans mat var að land ætti ekki eftir að gera neitt annað en að hækka í verði á næstu árum, þar sem eftirspurn eftir því til ýmissa nota færi vaxandi. Það skipti því miklu máli fyrir mjólkurframleiðsluna hvernig hún fjármagnaði sig á komandi árum, miklu máli skipti hvernig að því væri staðið þar sem greinin væri mjög fjármagnsfrek.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Jafet Ólafsson, framkvæmdastjóri Veigur ehf fjárfestingafélag

 

Í erindi sem nefndist „Í túninu heima“ fór Gylfi Arnbjörnsson yfir mun á matvælaverði hér heima og erlendis, þróun í mjólkurframleiðslunni á undanförnum árum, framlag landbúnaðarins til hagvaxtar á Íslandi, opinberan stuðning við greinina og minnkandi pólitískt vægi hennar. Hann lagði áherslu á að stuðningur færi minnkandi á komandi árum, sem og tollverndin. Bændur ættu að leggja áherslu á að brjótast út úr innflutningsverndinni, heldur en að beygja sig undir hana. Þeir ættu því að sækja fram á útflutningsmörkuðum, heldur en að halda sig „bara í túninu heima“.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Gylfi Arnbjörnsson, framkvæmdastjóri Alþýðusambands Íslands

 

Vilhjálmur Egilsson varpaði fram þeirri hugmynd að næsti samningur um starfsskilyrði mjólkurframleiðslunnar yrði sá síðasti af því tagi. Hugmyndin væri að ríkið keypti allt greiðslumark til mjólkurframleiðslu af kúabændum með útgáfu skuldabréfa til þeirra. Greinin gæti síðan notað þessa fjármuni til að byggja upp eða greiða niður skuldir. Það var mat Vilhjálms að með þessu sæti greinin eftir með miklu lægri kostnað og miklu heilbrigðari möguleika til að hagræða og fjárfesta í framleiðslutækjum. Þá yrði samkeppnishæfni greinarinnar mun betri á eftir.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins

 

Erindi Einars Sigurðssonar nefndist „Úr mjólkinni fá þau afl og andans þrótt“. Í því kom fram að árangur kúabænda í framtíðinni réðist af miklu leyti af því hversu vel þeir gætu lagað sig að breyttum aðstæðum. Eins og hjá öðrum stjórnendum fyrirtækja, þá væri það ein af megin forsendum greinarinnar til framtíðar. Einar lagði einnig áherslu á fjölþætt hlutverk landbúnaðar, að fara um blómlegar sveitir væri eitt af grundvallarlífsgæðum landsmanna. Hann kom einnig inná þær skiptu skoðanir sem væru um hvort greinin ætti að leggja áherslu á sérstöðu eingöngu, eða nýta alla tækni og tækifæri til hagræðingar, framleiða mikið á samkeppnishæfu verði. Sín skoðun væri sú að með auknu viðskiptafrelsi, yrði jafnframt að heimila þeim kúabændum sem áhuga hafa, að taka í notkun afkastameira og hagkvæmara kúakyn. Ekki mætti þó setja samasemmerki milli þess og að landnámskynið yrði aflagt, í því fælust einnig tækifæri á markaði.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Einar Sigurðsson, framkvæmdastjóri Árvakurs 

 

Pallborðsumræður einkenndust talsvert af hinni gerbreyttu stöðu mjólkurframleiðslunnar, sem einkennast af snarversnandi rekstrarumhverfi sem til hefur komið á síðustu mánuðum. Þar vegur þyngst stórhækkandi fjármagnskostnaður, kjarnfóðurverð og nú síðast áburðarverðshækkanir af áður óþekktri stærð. Ekki stæði steinn yfir steini í rekstraráætlunum þeirra búa sem hafa verið að byggja sig upp á undanförnum árum. Ef ekki yrði breyting þar á, væri ekki sjálfgefið að á Íslandi yrði yfir höfuð mjólkurframleiðsla að 12 árum liðnum.

 

Til þess að halda í fólkið yrði mjólkurframleiðslan að halda í við launaþróun í samfélaginu, fólkið í greininni sætti sig ekki við lakari kjör en gengi og gerðist í samfélaginu. Það yrði því að leita allra leiða til hagræðingar, væri ekkert þar undanskilið.

 

Þá var og minnt á mikilvægi matvælaöryggis og mismun á verði aðfanga hér á landi og annars staðar. Verð á kjarnfóðri t.d. í Noregi væri 30 kr/kg meðan það væri milli 45 og 50 kr/kg hér á landi. Þá væri fjármagnskostnaður hér einhver sá hæsti á byggðu bóli.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Þátttakendur í pallborðsumræðum

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Gestir á málþinginu fylgjast með af athygli