Beint í efni

Veita skuli kjötafurðastöðvum heimild til frekara samstarfs

06.11.2020

Aðalfundur Landssambands kúabænda stendur nú yfir. Lýsir fundurinn yfir þungum áhyggjum af stöðu nautakjötsframleiðslu á Íslandi. Nautgripabændur hafa þurft að þola miklar verðlækkanir undanfarna mánuði, en verðlækkanir það sem af er ári samsvara um 150 milljón króna tekjutapi fyrir greinina á ársgrundvelli. Er þess krafist að í stað þess að stöðugt sé gengið á hlut bænda, sem nú þegar er af ansi skornum skammti, sé greininni búið eðlilegt starfsumhverfi, ráðist verði í frekari hagræðingaraðgerðir innan afurðastöðva og stjórnvöld geri þeim kleift að gera það. Með aukinni samkeppni við innfluttar landbúnaðarafurðir á ódýrum aðflutningsgjöldum og miklum launahækkunum hefur geta afurðastöðva til að greiða bændum ásættanlegt verð fyrir afurðir okkar skaðast verulega.

Auk aðgerða í tollamálum er því beint til stjórnvalda að veita afurðastöðvum í kjötframleiðslu heimild til að hafa með sér ákveðið samstarf og verkaskiptingu á markaði. Með því mætti ná fram töluverðri hagræðingu á ýmsum sviðum rekstrarins og rými skapast til að borga bændum ásættanlegt verð fyrir sínar afurðir.