Beint í efni

Veirusýking á minkabúi í Skagafirði

20.11.2008

Greinst hefur veirusýking á minkabúinu á Óslandi í Skagafirði. Tekin eru árlega blóðsýni af um 10% lífdýra allra minkabúa á landinu til að fylgjast með tilteknum veirusjúkdómi og var það einmitt í slíkri leit sem sjúkdómurinn greindist. Hluti villta minkastofnsins er sýktur og er helsta smitleiðin beint á milli einstaklinga. Hefur sjúkdómurinn af og til verið greindur hér á landi en veirusýkingin herjar einungis á minka. Sjúkdómurinn er ólæknandi og er því er gripið til niðurskurðar á öllum lífdýrum og farið í gagnger þrif og sótthreinsun á viðkomandi búi áður en ný dýr eru tekin aftur á búið.

Einar Einarsson, ráðunautur hjá Bændasamtökum Íslands, segir að þetta sé mikið áfall. „Bæði er þetta áfall fyrir viðkomandi bónda sem lendir í þessu og svo fyrir greinina í heild. Við erum að reyna að verjast þessum veirusýkingum með sóttvarnarbúunum tveimur sem rekin eru. Þetta er einn af þeim sjúkdómum sem við erum að verjast en þó sá eini sem herjað hefur á íslensk minkabú á undanförnum árum, aðallega vegna þess að við höfum hann hér í villta stofninum.“ Telur Einar að smitmöguleikarnir séu nokkrir; t.d. að bóndinn hafi borið með sér smit frá útlöndum, að samneyti hafi átt sér stað milli einstaklinga á búi og í villta stofninum eða að grenjaskytta hafi borið sýkinguna á búið með einhverjum hætti, hugsanlega t.d. bara með handabandi við bóndann. Síðast kom þessi veirusýking upp á minkabúi árið 2005 og þar áður 1996.