Beint í efni

Vegna umræðu um stjórnsýsluverkefni

31.10.2011

Fréttastofa Ríkisútvarpsins flutti 26. október sl. frétt um stjórnsýsluverkefni sem Bændasamtök Íslands sinna. Þar kom fram að ekki væri sjáanlegt á framlögðu fjárlagafrumvarpi að flytja ætti verkefni frá BÍ til Matvælastofnunar þrátt fyrir ábendingar þar um frá Ríkisendurskoðun. Í fréttinni er því haldið fram að ríkisvaldið greiði Bændasamtökunum 400 milljónir króna vegna umræddra verkefna. Aðrir fjölmiðlar hafa einnig haldið þessu fram í sínum fréttum. Bændasamtökin mótmæla þessum málflutningi harðlega sem á ekki við nein rök að styðjast. Vilja samtökin koma eftirfarandi á framfæri:

Bændasamtök Íslands sinna ýmsum verkefnum tengdum stjórnsýslu, bæði samkvæmt samningum við Matvælastofnun, en einnig öðrum sem samtökunum eru falin með búvörulögum eða öðrum stjórnvaldsfyrirmælum. Um er að ræða verkefni sem fela í sér söfnun og úrvinnslu upplýsinga um búvöruframleiðsluna, ýmis verkefni tengd framkvæmd búvörusamninga, s.s. að halda skrár um greiðslumark, réttindi til beingreiðslna, gripagreiðslna og veita upplýsingar úr þessum skrám til hlutaðeigandi aðila ásamt því að viðhalda og þróa nauðsynlegan hugbúnað. Árið 2010 námu greiðslur til BÍ fyrir framkvæmd þessara verkefna alls 14,8 milljónum króna. Þar af komu um 11 milljónir króna beint úr ríkissjóði en aðrar þóknanir voru greiddar af ríkisframlögum til viðkomandi verkefna. Því er fjarstæða að Bændasamtökin fái greiddar 400 milljónir króna fyrir umrædd verkefni. Það er mikilvægt að halda til haga að stjórnsýsla og stjórnsýsluábyrgð er ekki á hendi BÍ og samtökin hafa ekki sóst eftir að vinna þau verkefni sem að framan eru talin.

Í gildi er svokallaður búnaðarlagasamningur milli ríkisvaldsins og Bændasamtaka Íslands sem undirritaður var í október 2010. Í samningnum er kveðið á fjármögnun þeirra verkefna sem Bændasamtökunum er gert að sinna samkvæmt búnaðarlögum nr. 70/1998. Í ár nemur sú upphæð 415,8 milljónum króna. Af þeirri upphæð fara 301,9 milljónir króna í ráðgjafarþjónustu til bænda sem m.a. búnaðarsambönd sinna um allt land, 86,4 milljónir í búfjárræktarstarf en þar undir falla meðal annars kúasæðingar og kynbótaskýrsluhald, 11,7 milljónir fara til þróunar- og markaðsverkefna og 15,3 milljónir renna til Framleiðnisjóðs landbúnaðarins. Umræddum fjármunum ráðstafa Bændasamtökin til aðila vítt og breitt um landið í samræmi við búnaðarlög. Samtökin hafa nú nýlega farið þess á leit við yfirvöld að skilgreiningum í fjárlagafrumvarpi verði breytt á þá vegu að Bændasamtökum Íslands séu ekki markaðir þessir fjármunir þar sem þeir fara til skilgreindra verkefna samkvæmt búnaðarlagasamningi. Jafnframt hefur verið óskað eftir því að fjárlagaliðurinn heiti „Framlög vegna búnaðarlagasamnings“ í stað þess að vera merktur Bændasamtökum Íslands.