Beint í efni

Vegna tilkynningar Samkeppniseftirlitsins um þátttöku hagsmunasamtaka í opinberri umræðu

22.10.2021

Í ljósi tilkynningar sem birt var á vef Samkeppniseftirlitsins í dag vill stjórn Bændasamtaka Íslands koma eftirfarandi athugasemdum á framfæri.

Bændasamtök Íslands eru hagsmunasamtök sem rekin eru í þágu félagsmanna sinna, íslenskra bænda. Hlutverk þeirra samkvæmt samþykktum er að gæta hagsmuna bændastéttarinnar og fylgjast grannt með afkomu bænda og rekstrarskilyrðum landbúnaðarins. Samtökin fylgja lögum og reglum í hvívetna í sínum störfum.

Það er hluti af eðlilegri upplýsingagjöf samtakanna til sinna félagsmanna að fylgjast með og greina stöðu og horfur vegna nauðsynlegra aðfanga í landbúnaði eða einstökum greinum hans. Það liggur ljóst fyrir að umræður um fyrirsjáanlegan skort eða verðhækkanir á áburði, svo dæmi sé tekið, höfðu þann tilgang að búa félagsmenn undir breytingar. Í því felst ekki að hvatt sé til verðhækkana með ólögmætu verðsamráði, heldur er þvert á móti stuðlað að því að lágmarka áhrif skorts eða hækkana á aðföngum á innlenda framleiðslu. Samtökin fjalla jafnframt almennt um fyrirætlanir stjórnvalda um að leggja íþyngjandi kvaðir á atvinnugreinina, svo sem hertar kröfur um aðbúnað, gjaldtöku og leyfisveitingar. Slíkar ákvarðanir hafa óhjákvæmilega áhrif á framleiðslukostnað til lengri tíma litið. Opinber umræða um áhrif af aðfangahækkunum er hliðstæð því hlutverki og snýr að því að aðilar á markaði séu upplýstir um það sem er að gerast í raunheimum.

Þá skal það áréttað að bændur eru í langflestum tilvikum verðþegar, enda hafa þeir sem hrávöruframleiðendur sem selja sínar vörur áfram engin áhrif á verð á markaði. Bændur, líkt og aðrir atvinnurekendur og launafólk hafa mikla hagsmuni af því að verðhækkanir séu með þeim hætti að verðstöðugleika sé ekki ógnað. Þannig er það mikilvægt að fram fari upplýst umræða um áhrifaþætti sem geta leitt til áskorana á næstu misserum.