Vegna smáauglýsingar í Bændablaðinu – dómur Hæstaréttar
19.05.2009
Í síðasta tölublaði Bændablaðsins sem kom út 14. maí sl. birtist eftirfarandi smáauglýsing:
„Mjólkurkvóti – beingreiðslur. Vilt þú hætta
mjólkurframleiðslu, selja kýrnar en eiga
kvótann og hirða beingreiðslurnar fyrirhafnarlaust?
Hafðu samband, sími 841-8618.“
Að gefnu tilefni er rétt að benda á að í dómi Hæstaréttar Íslands nr. 177 frá 11. desember 2003 segir eftifarandi:
„Mjólkurframleiðsla á öðru lögbýli hefði því ekki veitt Þ rétt til beingreiðslna úr ríkissjóði og stæðu ákvæði stjórnarskrár um vernd eignarréttar og atvinnufrelsi ekki í vegi fyrir ákvörðun Í um endurgreiðslu þess sem ofgreitt hefði verið“.
Í dómnum segir einnig:
„Svo sem skýrlega er rakið í héraðsdómi lýtur ágreiningur aðila að því með hvaða hætti handhafi greiðslumarks lögbýlis megi hagnýta þann framleiðslurétt sem því fylgir svo og réttinn til þess að fá beingreiðslur samkvæmt búvörusamningi fyrir mjólkurframleiðslu sína, og þá sér í lagi hvort lög hafi hindrað áfrýjanda í því að semja um það við annan bónda að framleiða mjólk upp í greiðslumark sitt. Löggjöf sem lýtur að þessu er rakin í héraðsdómi og sú niðurstaða fengin, að með tilgreindum ákvæðum laga nr. 112/1992 um breytingu á þágildandi lögum nr. 46/1985 um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum hafi verið kveðið á um að greiðslumark skuli fylgja lögbýli og að ekki sé heimilt að leigja það eða framleiða upp í það á öðru lögbýli. Fyrrgreindu lögin voru felld inn í meginmál þeirra síðarnefndu og gefin út svo breytt sem lög nr. 99/1993 um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum“.
Í ljósi framangreinds dóms Hæstaréttar hlýtur sú spurning að vakna hvort að gjörningur sá sem auglýstur er, samrýmist landslögum?