Beint í efni

Vegna fréttatilkynningar frá Fóðurblöndunni hf

22.01.2009

Í tilefni fréttatilkynningar frá Fóðurblöndunni hf sem gefin var út fyrr í dag vill Landssamband kúabænda (LK) koma eftirfarandi á framfæri.

 

Kjarnfóður er eitt af mikilvægustu aðföngum mjólkurframleiðslunnar. Í ljósi þessa hefur LK fylgst náið með kjarnfóðurverði hér á landi. Síðan í desember 2002 hafa verðlistar og afsláttarkjör kjarnfóðursala verið öllum aðgengilegir hér á naut.is. Jafnframt hafa tilkynningar þessara sömu aðila um verðbreytingar á fóðri og flutningi þess, verið birtar hér svo árum skiptir. Nú síðast fyrir tæpri viku. Hin síðari ár hefur LK einnig gert verðkannanir á kjarnfóðri í nágrannalöndunum, niðurstöður þeirra hafa einnig verið birtar á heimasíðu Landssambands kúabænda.
 

Fóðurblandan hf lýsir miklum áhuga á að upplýsa um allar staðreyndir málsins og vinda ofan af meintum ranghugmyndum Samkeppniseftirlitsins og framkvæmdastjóra LK um verðsamráð Fóðurblöndunnar hf við keppinauta. Er það vel. Framkvæmdastjóri LK lýsir hins vegar furðu sinni á því að skoðanir einstakra aðila séu lagðar að jöfnu við aðgerðir opinberrar eftirlitsstofnunar. Jafnframt má benda á, að fleiri aðilar en LK hafa lýst efasemdum um háttsemi fyrirtækja á kjarnfóðurmarkaði en eru algerlega sniðgengnir í fréttatilkynningunni.

 

Landssamband kúabænda tekur undir með Fóðurblöndunni um að rannsókn málsins verði hraðað, svo niðurstöður liggi fyrir svo fljótt sem verða má.