Beint í efni

Vegna athugasemda SS um fóðurverð

08.04.2009

SS birti á heimasíðu sinni þann 26. mars sl. nokkrar athugasemdir vegna samanburðar LK á verði fóðurs sem DLG selur í Danmörku og SS flytur hingað til lands. Vegna þessa er rétt að koma eftirfarandi atriðum á framfæri:

 

Vegna mismunandi steinefnainnihalds í blöndunum sem seldar eru í Danmörku og hér á landi, þá kom fram í samtali undirritaðs og sölumanns hjá DLG í Danmörku, að kostnaðurinn vegna hærra innihalds steinefna er 2-4 dkk pr. 100 kg fóðurs, eða 45-90 íslenskir aurar pr. kg fóðurs. Það má því kallast bitamunur, ekki fjár. Svipaða sögu er að segja af fóðureftirlitsgjaldi, það er 0,9% af CIF verði fóðursins, líklega nálægt 30-35 aurum á kg.

Upplýsingarnar sem LK aflaði um fóðurverðið eru frá dönskum kúabónda, sem kaupir fóður af DLG. Að þetta séu „áætluð nálgun heimildarmanns LK“ er því einfaldlega rangt. Um ástæður þess að DLG segir dönskum viðskiptamönnum sínum eitt og vill síðan ekkert kannast við það hér uppi á Íslandi, getur LK ekki útskýrt. Raunar gat starfsmaður DLG það ekki heldur. Það kom einnig fram að SS kaupir fóður á „dagsprísum“ en gerir ekki samninga um verð fram í tímann, eins og danskir bændur gera. Það má hafa talist skynsamleg ráðstöfun á sl. ári, meðan fóðrið var að lækka í erlendri mynt. Hins vegar þegar jafnvægi hefur ríkt um nokkurra mánaða skeið og ekkert útlit fyrir frekari verðlækkanir, má vel hugsa sér að festa verðið.

 

Um flutningskostnað hingað til lands er það að segja að á sl. ári kostaði flutningur á fóðurhráefnum í lausu til Íslands frá Evrópu 3,50-5 kr/kg. Fræ, sem flutt er inn í smásekkjum á pallettum kostaði 17 kr/kg í flutningi til landsins á sl. ári. Þetta er skv. upplýsingum frá Hagstofu Íslands. Ekki er ólíklegt að flutningskostnaður á fóðri í gámum liggi einhvers staðar þarna mitt á milli. Eins og sjá má hér, hefur verð (í USD) á sjóflutningum um heimshöfin verið í frjálsu falli undanfarið ár. Það vegur því vel á móti gengisáhrifum.

 

Til þessa hefur SS ekki haft neinn áhuga á samanburði við „dönsku blöndurnar“ sem innlendir framleiðendur hafa haft á boðstólum um skeið, þar sem gæðamunurinn væri þeim innlendu mjög í óhag. Reyndar er það svo að efnahagslegur ávinningur bænda af því að nota þessar innlendu jurtapróteinblöndur er enginn, eins og fram kom í samanburðartilraun LBHÍ, sem lesa má um hér.

 

Niðurlagsorð greinarinnar eru á þá leið að „þar sem stefnt er að því að mjólkurkýr mjólki sem mest af orkuríkum fyrsta flokks heyjum og markvissri en takmarkaðri kjarnfóðurgjöf skilar hefðbundin kjarnfóðurblanda á hvert gefið kjarnfóðurkíló meiri nyt og efnameiri mjólk en “dönsku” blöndurnar. Efnahagslegur ávinningur af því að skipta yfir í “danska” blöndu er þar enginn samkvæmt þessum tilraunum og miðað við verð á þessum blöndum í apríl 2008“. Verðhlutföllin sem þarna er rætt um eru þau sömu nú og þá.

 

LK er ennþá þeirrar skoðunar að innkoma SS á fóðurmarkaðinn mætti vera áhrifameiri og telur borð fyrir báru í þeim efnum. Hafa verður hugfast að hver króna pr. kg kjarnfóðurs, þýðir 30 milljóna króna útgjaldaauka fyrir búgreinina. Hér er því um stórar upphæðir að tefla.