Beint í efni

Veffundur um sameiningu BÍ og búgreinafélaga

01.03.2021

Stjórn Bændasamtakanna hefur boðað til bændafundar á netinu fimmtudaginn 4. mars kl.13:00 þar sem kynntar verða tillögur að breytingum á félagskerfi landbúnaðarins.

Síðustu daga hefur forsvarsfólk BÍ fundað með fulltrúum búgreinafélaga um mögulega sameiningu í eitt félag. Nýtt skipulag byggist á þeirri sýn að Bændasamtök Íslands verði öflugt félag bænda sem sé í virkum tengslum við neytendur og stjórnvöld á hverjum tíma. Meginmarkmiðið með sameiningunni er að sögn forystufólks innan BÍ að auka skilvirkni og bæta nýtingu fjármuna, ná fram sem breiðastri samstöðu meðal bænda og auka slagkraft hagsmunagæslunnar.

Gunnar Þorgeirsson, formaður BÍ, og Oddný Steina Valsdóttir, varaformaður BÍ, munu kynna sameiningarhugmyndirnar og sitja fyrir svörum á opnum veffundi fimmtudaginn 4. mars klukkan 13.00. Fundinum verður streymt á Facebook-síðu Bændasamtakanna en þar geta þátttakendur sent inn fyrirspurnir á meðan fundi stendur. Einnig stendur til boða að leggja fram spurningar fyrir fundinn á netfangið bondi@bondi.is.