Beint í efni

Veffræðslan að bresta á!

18.10.2012

Nú er orðið stutt í fyrsta fyrirlesturinn af 16 nú í vetur á vegum verkefnisins Veffræðsla LK. Nú þegar hafa á annað hundrað aðilar óskað eftir og fengið sent lykilorð til þess að geta horft og hlustað á fyrirlestrana. Óhætt að segja að áhugi bæði bænda, ráðunauta, dýralækna, sölufólks og kennara er framar öllum vonum. Lengi má þó bæta við og það er um að gera að sækja um lykilorð að hinni læstu heimasíðu, að kostar ekkert að vera með. Það eina sem gera þarf er að senda tölvupóst á: skrifstofa(a)naut.is og óska eftir lykilorði.

 

Á mánudaginn kemur fer fyrsti fyrirlesturinn í loftið, en það er landsráðunauturinn Berglind Ósk Óðinsdóttir sem ríður á vaðið með fróðlega umfjöllun um kosti NorFor kerfisins. Í vikunni þar á eftir er það svo Grétar Hrafn Harðarson sem fjallar um burð og burðarerfiðleika og svo halda fyrirlestrarnir áfram koll af kolli fram að sumarbyrjun 2013. Nánar má fræðast um þetta verkefni með því að smella á hlekkinn hér efst til vinstri á heimasíðunni/SS.