Beint í efni

Veffræðsla LK: Um grastegundir í túnum

14.03.2016

Enn bætist við í safnið í Veffræðslukerfi LK og að þessu sinni fjallar Eiríkur Loftsson, ábyrgðarmaður jarðræktar hjá RML um grastegundir í túnum, kosti þeirra og galla.

 

Í erindinu fer Eiríkur yfir helstu eiginleika sem grastegundirnar eiga að búa yfir, m.a. fóðrunarvirði þeirra og fóðurgildi. Þá ræðir hann um tilraunaniðurstöður með grastegundir og uppskerumagn þeirra og fjallar um mismunandi endingu ólíkra grastegunda eftir ræktunarskilyrðum. Gefur svo í lokin afar greinargott yfirlit yfir hverja af þeim algengustu grastegundum sem eru notaðar hér á landi.

 

Ef þú ert að velta fyrir þér endurræktun nú í vor þá er þetta algjörlega nauðsynlegt 20 mínútna erindi fyrir þig og gæti opnað hugann gagnvart nýjum tegundum nú eða staðfest val á einni grastegund.

 

Næsta erindi í Veffræðslu LK mun svo fjalla um sáningartækni og illgresisvarnir í tún- og kornrækt en það erindi mun Finnbogi Magnússon, bútæknifræðingur og framkvæmdastjóri Jötuns, flytja. Þetta er erindi  sem varð að fresta 29. febrúar sl. og því færðist það aftur fyrir erindi Eiríks.

 

Til þess að sjá og hlusta á þennan fyrirlestur eða eldri fyrirlestra þá geta þeir sem eru með aðgengi smellt hér á hlekkinn fyrir neðan og slegið þar inn notendanafn og lykilorð. Þeir sem ekki eru komnir með aðgang að kerfinu eru að sjálfsögðu hvattir til að gera það (er ókeypis) með því að senda tölvupóst á skrifstofa(a)naut.is. Taka þarf fram fullt nafn og bæjarnafn eða starfheiti ef viðkomandi er ekki kúabóndi.

 

Rétt er að taka fram að allir sem vilja geta fengið aðgengi og óhætt að mæla með því við sem flesta enda mörg erindi sem ná langt út fyrir nautgriparækt sem slíka en í dag eru komin 56 erindi inn í Veffræðslukerfi LK, hvert öðru áhugaverðara.

 

Með því að smella hér færist þú yfir á Veffræðslusvæði Landssambands kúabænda/SS.