Beint í efni

Veffræðsla er framtíðin!

24.09.2012

Eftir því sem þróun íslenskrar nautgriparæktar heldur áfram og búin hafa stækkað hefur þeim jafnframt fækkað. Samhliða kallar rekstrarumhverfi nútímans á stöðuga miðlun á nýjum fróðleik til bændanna, en það verður æ erfiðara eftir því sem strjálbýlla er. Landssamband kúabænda hefur því ákveðið að leggja af stað með tveggja ára tilraunaverkefni sem kallast veffræðsla LK, en verkefnið snýst um að koma fræðsluefni út til kúabænda með nýstárlegum hætti, á fyrirlestraformi heim til hvers og eins!

 

Miðað er við að þetta verði stuttir og hnitmiðaðir fyrirlestrar sem eingöngu eru aðgengilegir á vefnum, þ.e. bændurnir spila fyrirlestrana í tölvum sínum líkt og “myndbönd”.

 

Undanfarin ár hefur þetta form við miðlun stóraukist erlendis og er til í dag mikill fjöldi svona fyrirlestra á netinu, en því miður er enginn á íslensku. Úr þessu verður bætt nú með þessu tilraunaverkefni og má segja að með því séu tekin stór skref inn í framtíð endurmenntunar fyrir annasama bændur, en með umsjón þessa verkefnis fer Snorri Sigurðsson, ráðgjafi hjá Þekkingarsetri landbúnaðarins í Danmörku.

 

Um er að ræða afar einfalda tækni sem gerir bændunum mögulegt að skrá sig inn á lokað svæði á vef LK  (án endurgjalds) og horfa þar á upptökur af fyrirlestrum um valið efni, flutt af fagfólki innan viðkomandi fagsviðs sem um ræðir hverju sinni. Hver og einn stjórnar því hvenær horft er á upptöku og að sjálfsögðu getur viðkomandi horft aftur og aftur ef áhugi er á því! Hinsvegar er einungis hægt að senda fyrirspurnir á fyrirlesara í eina viku eftir að fyrirlestur birtist á vefnum og í kjölfar innsendra fyrirspurna (ef einhverjar eru) koma skrifleg viðbrögð við þeim.

 

Miðað verður við að vera með tvo fyrirlestra í hverjum mánuði og samtals verða þeir 16 fyrsta starfsár verkefnisins. Alls hefur verið samið við 12 sérfræðinga til þess að fjalla um ólík viðfangsefni, sem þó eiga sér það sameiginlegt að vera innan fagsviðs nautgriparæktarinnar.

 

Búið hefur verið til sér vefsvæði á heimasíðu LK, þar sem eru upplýsingar um verkefnið, dagskrá fyrsta starfsársins og þá er jafnframt hægt er að óska eftir lykilorði inn á hina læstu síðu þar sem fyrirlestrarnir munu koma. Aðgengi að hinni læstu síðu er þó ókeypis og geta allir sem vilja fengið aðgengi. Smelltu hér til þess að fræðasta nánar um þetta áhugaverða verkefni/SS.