Beint í efni

Vaxtaverkir mjólkurframleiðslunnar í Bandaríkjunum

26.07.2016

Frá árinu 2010 og til 2015 jókst mjólkurframleiðslan í Bandaríkjunum um heila 7 milljarða lítra og varð lang mest aukning í mið-vesturfylkjum Bandaríkjanna, en þau stóðu undir um helmingi aukningarinnar. Enn hefur aukningin haldið áfram á þessu svæði Bandaríkjanna og nú er svo komið að úrvinnslugeta afurðastöðvanna á svæðinu er ekki lengur nógu afkastamikil og hafa borist fregnir af því að einstaka afurðastöðvar hafi hreinlega neyðst til þess að hella niður mjólk þar sem kki var unnt að vinna úr henni.

 

Í ár hefur innvigtun mjólkur í mið-vesturfylkjum Bandaríkjanna aukist um 4,6% (janúar til maí) í samanburði við sama tímabil á síðasta ári og er það miklu meiri aukning en í öðrum fylkjum en meðalaukningin í Bandaríkjunum í ár er 1,7%. Vegna þessarar stöðu hafa þrjú afurðafélög, sem öll eru samvinnufélög í eigu kúabænda, gert með sér samkomulag um samstarf við ostaframleiðslu svo hægt sé að nýta alla þessa mjólk. Eru því nú í gangi framkvæmdir við byggingu á ostavinnslustöð í Michigan fylkinu en þegar hún tekur til starfa verður þar hægt að taka á móti 2,6 milljón lítrum af mjólk á degi hverjum sem lætur nærri að vera sex-föld dagleg mjólkurframleiðsla hér á landi/SS.