
Vaxandi eftirspurn eftir mjólkurvörum í Íran
08.03.2017
Í Íran hafa neytendur vaxandi áhuga á mjólkurvörum og munar um þennan mikla áhuga enda búa þar í landi um 71 milljón manns. Samkvæmt spá TechSci Reserach þá er því spáð að næstu 5 árin þá muni mjólkurvöruneysla vaxa um hvorki meira né minna en 22 prósent í Íran og muni sá vöxtur verða borinn uppi af bæði heimaframleiðslu en einnig innflutningi.
Þarlend stjórnvöld hafa lagt áherslu á landbúnað og matvælaframleiðslu undanfarin misseri, m.a. í þeim tilgangi að gera landið minna háð tekjum af olíuvinnslu. Þetta átak íranskra stjórnvalda er greinilega að hafa góð áhrif og hefur smitað af sér í átt að breyttum neysluvenjum íbúa landsins. Þannig kaupa neytendur í auknum mæli unnar vörur á ný en neytendamarkaðurinn í Íran var víst vel „þroskaður“ áður en landinu var stýrt inn í hörmungar stríða og viðskiptaþvingana. Nú er þessi markaður s.s. að taka við sér á ný og horfa því margir útflutningsaðilar mjólkurvara til Íran/SS.