Vatnskæling í fjósum!
29.08.2011
Þó svo að hitaálag á kýr, vegna sumarhlýinda, virki frekar fjarrænt á okkur hér á Fróni þá er alls ekki ólíklegt að kýr á Íslandi hafi upplifað sk. hitaálag í einstaka tilfellum. Erlendar rannsóknir sýna nefninlega að strax við 20 gráðu útihita fara hámjólka kýr (yfir 40 kg/dag) að sýna einkenni hitaálags s.s. hraðari öndun, slen og lækkun á dagsnyt vegna minna áts. Í stærri fjósum getur afurðatapið numið hundruðum lítra á dag hina heitu daga og hafa því margir bændur brugðið á það ráð að setja upp kælibúnað í fjósunum s.s. stórar viftur og úðakerfi.
Nú er komið í ljós að hinar stóru viftur, sem því miður of margir kúabændur erlendis hafa keypt, gera afar lítið gagn þar sem þær ná ekki að kæla húð kúnna. Né heldur virka úðakerfi nógu vel á kýr, en bæði úðakerfi og viftur virka hinsvegar vel á bændurna sjálfa þar sem mannskepnan kælist all vel niður með þessum kerfum og því hefur útbreiðsla þessara kerfa verið hröð.
Í ljós hefur komið að til þess að geta haft raunveruleg kælingaráhrif á kýr, þarf hreinlega að framkalla nánast rigningu í fjósunum! Við það nær húð kúnna að kólna og líkamshiti þeirra einnig. Vegna þessa er bændum í heitari löndum nú ráðlagt að koma sér upp einskonar sturtukerfi á biðsvæðum í fjósunum og gegnbleyta kýrnar en það hefur raunveruleg áhrif til kælingar og þar með bættri líðan kúnna/SS.