Beint í efni

Varahlutir seljast eins og heitar lummur!

23.10.2010

Naut.is hefur á liðnum mánuðum tekið nokkra starfsmenn helstu þjónustufyrirtækja tali og tekið „púlsinn“ á stöðunni eins og sagt er. Að þessu sinni varð fyrirtækið Vélfang fyrir valinu og fyrir svörum varð Skarphéðinn K. Erlingsson sem er reynslubolti þegar kemur að þjónustu við landbúnað. Vélfang er, eins og margir vita, með höfuðstöðvar í Reykjavík en rekur umboð og

verkstæði á Akureyri einnig.

 

Góð sala varahluta
Vélfang hefur, rétt eins og önnur fyrirtæki í landbúnaði, fengið sinn skerf af mótvindi á liðnum misserum en þar á bæ er enginn bilbugur á þeim níu mönnum sem þar er að finna. „Ja hvað sem líður framvindu efnahagsmála og ytra umhverfis, þá eru enn til markaðir sem nota tæki og rekstarvörur frá degi til dags og þurfa því þjónustu og endurnýjun.  Endurnýjunin er að vísu hægfara, en sannarlega kúvending frá fyrra ári.

 

Vélfang selur m.a. Claas Uniwrap 455 en meðfylgjandi mynd var tekin þegar Eyjólfur Pálmason frá Vélfangi afhenti Þresti Aðalbjarnarsyni og dætrum hans þeim Alexöndru Ástu og Bjarndísi Erlu frá Stakkhamri vél sína. Gunnari Guðbjartsson frá Hjarðarfelli er einnig á myndinni lengst til hægri.

Vorið og sumarið skiluðu sér vel og vélasala var í takt við væntingar. Varahlutasala var og er gríðarmikil enda leitað til okkar með útvegun varahluta í flestar gerðir véla og tækja á markaðnum. Á það jafnt við um tæki til verktöku og landbúnaðar. Það ýtir svo undir velgengni verkstæðisins, sem á örskömmum tíma fyllti það tómarúm sem skapaðist við hrun vélasölu 2008-2009.
 

Salan á fyrstu haustmánuðum er þó með minn a móti, sem er árvisst ástand. JCB er þó farið að skila sér í sölu. Þá erum að kynna heildstæða línu í stæðuskerum og byltingarkenndan rúlluhníf sem þversker rúllurnar í tvennt í plastinu, leggur hana frá sér en heldur plasti og neti eftir í sérstakri klemmu (sjá mynd). Við teljum okkur bjóða breiðustu línu sem völ er á í rúllu- og stórbaggagreipum, rúllusöxurum og skerum ásamt heilfóðurblöndurum  og fóðurkerfum ofl. til meðhöndlunar og blöndunar gróffóðurs“, sagði Skarphéðinn í viðtali við naut.is.

 

 

Bjóða árlegan afslátt af KUHN vélum
Þessa dagana er árlegt KUHN tilboð að berast öllum bændum en að sögn Vélfangsmanna er það gert til þess að gera fleirum kleift að ráðast í fjárfestingar, með stuðningi KUHN verksmiðjanna. Saman bjóða fyrirtækin flatan 15% afslátt af öllum jarðvinnu- og heyvinntækjum. „Einu undantekningarnar eru rúllusamstæður og rúllupökkunarvélar, en sem kunnugt er tók KUHN yfir framleiðslu og sölu á Taarup BIO og Vicon rúlluvélum ásamt pökkunarvélum og tromlusláttuvélum frá Kverneland. Við veitum þó 5% afslátt af öllum rúllu- og pökkunarvélum til áramóta“, sagði Skarphéðinn. Aðspurður hvað hann Vélfang veita varahluta- og viðgerðarþjónustu við Vicon og Deutz-Fahr rúlluvélar.

 
Fendt á leiðinni og JCB í sókn!
Að sögn Skarhéðins er dráttarvélasalan aðeins að taka við sér eftir langan dvala og er m.a. ein Fendt dráttarvél á leið til landsins í nóvember. „Þá eru JCB eigendur vaxandi hópur viðskiptavina og veigamikill  hornsteinn til framtíðar“.

 

 

 

Hátíð út í heim
Það virðist vera í stöðugt fleiri horn að líta hjá þeim Vélfangsmönnum og þar er margt á prjónunum. Má sem dæmi nefna að fyrirhuguð er ferðin „Hátíð út í heim“ í febrúar næstkomandi. Þar mun bændum standa til boða að fara í fagferð til Frakklands með hæfilegum hlutföllum af verksmiðjuheimsóknum, kvöldskemmtunum og langri helgi í París með ferð á SIMA landbúnaðarsýninguna fyrir þá sem það vilja. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Vélfangsmenn standa að svona ferð og hafa þær verið vel heppnaðar.
 

Hvað er framundan hjá Vélfangi?
„Áframhaldandi endurreisn og sókn á okkar markaði. Við höfum nýtt tímann vel til skipulagningar og áætlanagerðar. Sýnin er jafnskýr og við stofnun fyrirtækisins: Að bjóða einungis hágæða vörur, frá virtum framleiðendum, fyrir þær krefjandi aðstæður er hér ríkja og veita viðskiptavinum Vélfangs ávallt bestu þjónustu og eftirfylgni sem gerlegt er. Á heildina litið horfum við bjartsýn og full tilhlökkunar til framtíðar“, sagði Skarphéðinn að lokum í viðtali við naut.is