
Vara við hækkandi smjörverði
25.07.2017
Eftir miklar hækkanir heimsmarkaðsverðs á smjöri er smjör nú þegar farið að hækka í verði í verslunum víða um heim en stóraukin eftirspurn eftir mjólkurfitu nú um stundir gæti einnig leitt til enn meiri hækkunar og sér í lagi er nú þegar byrjað að vara við því að smjör og rjóma gæti hugsanlega skort um jólin í Bretlandi ef þróunin heldur áfram með sama hætti. Þetta var m.a. haft eftir forstjóra Arla í síðustu viku, en margir telja þó að tilgangurinn hafi fyrst og fremst verið sá að setja þrýsting á stórverslanir í Bretlandi og um leið að skapa ákveðinn skilning meðal neytenda ef smjör taki að hækka enn frekar á komandi mánuðum.
Hver sem tilgangur forstjórans var þá liggur fyrir að breskir kúabændur hafa ekki aukið framleiðsluna undanfarið og því hafi þurft að flytja töluvert af mjólk og mjólkurvörum til Bretlands. Þegar líður að jólum er þó fyrirséð að það verði mikil þörf fyrir mjólkurfituna í þeim heimalöndum þar sem mjólkin er framleidd og því gæti vel farið svo að bresku neytendurnir muni upplifa skort á smjöri og rjóma í desember eða í öllu falli verulega verðhækkun/SS.