
Vanilluísinn enn lang vinsælastur
01.08.2017
Undanfarin ár hafa ísframleiðendur víða um heim komið með allskonar ís-nýjungar og á það bæði við um áferð íssins, framsetningu en ekki síður bragð og fást nú hreint ótal mismunandi afbrigði þannig að allir ættu að geta fundið ís við hæfi. Ísneysla í Bandaríkjunum er afar mikil og sem dæmi má nefna að í þarlendri könnun kom í ljós að 9 af hverjum 10 aðspurðum höfðu keypt sér ís einhverntímann á 6 mánuða tímabili og auðvitað höfðu margir gert það oft. Stærð ísmarkaðarins í Bandaríkjunum er enda hreint ótrúleg og veltir þessi hluti mjólkuriðnaðarins landsins u.þ.b. 4 þúsund milljörðum króna á ári hverju!
Það er því skiljanlegt að miklum fjármunum sé varið til markaðsrannsókna og þróunarvinnu með ís og var nýverið gerð könnun á því hvaða ísbragð væri það sem bandarískum neytendum fannst best. Þrátt fyrir framangreinda þróun og tilraunastarfsemi þá kom skýrt fram að vanilluísinn er enn sá ís sem á hug og hjörtu flestra. Númer tvö á listanum var súkkulaðiísinn og þriðja vinsælasta gerðin, sem er reyndar ákveðin nýjung, var kexblandaður ís.
Til marks um mikilvægi íssins fyrir Bandaríkin og bandaríska neytendur þá ákvað Ronald Reagan, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, að þriðji sunnudagurinn í júlí ætti að vera kallaður ísdagur Bandaríkjanna. Þessi ákvörðun var tekin árið 1984 og hefur frá þeim tíma verið haldið upp á daginn/SS.