
Valio tapaði í hæstarétti
07.01.2017
Árið 2013 sögðum við fyrst frá því að finnska afurðafélagið Valio hefði verið dæmt til þess að greiða gríðarlega háa stjórnvaldssekt, alls um 12 milljarða króna á gengi þess tíma – 8,3 milljarða á gengi dagsins í dag, vegna misnotkunar á markaðsráðandi stöðu á finnska markaðinum. Upphaf málsins má rekja til þess að Arla, sem er reyndar miklu stærra félag og starfar í mörgum löndum, er þó bara lítið félag í Finnlandi og kærði þar Valio fyrir að misnota markaðsráðandi stöðu sína. Í stuttu máli sagt hélt Valio niðri mjólkurverðinu og eftir rannsókn á málinu var sett stjórnvaldssekt á Valio, sem svo áfríaði málinu áfram til æðri dómstóla. Valio tapaði í héraðsdómi og nú eftir jólin féll svo hæstaréttardómur í málinu og tapaði félagið enn. Niðurstaðan er því skýr, félaginu ber að greiða sektina stóru.
Þrátt fyrir að félagið geti greitt sektina án lántöku er ljóst að lausafjárstaðan er erfið núna og hefur stjórn félagsins þegar gefið út að ekki verði hægt að fara í þá uppbyggingu sem stefnt var á næsta áratuginn. Til þess að bæta gráu ofan á svart hefur dómur hæstaréttar nú einnig gert það að verkum að Arla getur sótt skaðabætur til Valio og hefur þegar verið farið fram á tæplega 7 milljarða íslenskra króna í bætur. Fari svo að dómstólar dæmi Arla í vil í því máli einnig, er hætt við að staða Valio verði afar erfið.
Ef þú vilt kynna þér nánar þetta sérstaka mál getur þú m.a. lesið fréttina frá 2013 með því að smella hér og svo er hér hlekkur á aðra frétt um málið/SS.