Valio byggir fyrir 24 milljarða!
14.04.2016
Stjórn finnska samvinnufélagsins Valio ætlar heldur betur að snúa vörn í sókn, eftir að hafa lent í miklum hremmingum í kjölfar lokunar Rússlandsmarkaðarins eins og við höfum áður greint frá. Félagið ætlar að fjárfesta í nýrri vinnslustöð í bænum Herajoki í suður Finnlandi en í þessari afurðastöð verða unnar margskonar tilbúnar neysluvörur úr mjólk.
Hin nýja afurðastöð mun verða í kringum 20 þúsund fermetrar að stærð og vinnslugetan um 120 milljónir lítra á ári eða sem nemur 6% af árlegri innvigtun Valio. Áætlað er að þarna skapist 90 ný störf hjá félaginu en fyrir er á svæðinu önnur vinnslustöð þar sem starfa 400 manns. Alls er áætlað að heildarkostnaður við fjárfestinguna nemi 24 milljörðum íslenskra króna en hin nýja afurðastöð tekur til starfa strax á næsta ári/SS.