Væntir óbreytts landbúnaðarstuðnings til 2020
20.09.2010
Herman Versteijlen, yfirmaður landbúnaðarmarkaðsmála hjá stjórn Evrópusambandsins, hélt í liðinni viku erindi á árlegri ráðstefnu DairyUK í Bretlandi. Þar kynnti hann ætlaðar breytingar á stuðningskerfi landbúnaðarins (CAP) árin 2014–2020. Markverðustu tíðindin eru þau að það stefnir í að landbúnaðarstuðningurinn verði óbreyttur til 2020. Þetta er nokkuð óvænt þar sem mörg aðildarlönd Evrópusambandsins hafa verið undir miklum þrýstingi í kjölfar efnahagskreppunnar. Verði þetta niðurstaðan, en ákvörðun verður tekin næsta sumar/haust,
eru þetta afar góð tíðindi fyrir bændur innan Evrópusambandsins sem áður höfðu horft fram á lækkandi stuðning og þar með versnandi afkomu.
Fram kom í máli Versteijlen að þrátt fyrir að heildarstuðningurinn verði áfram að líkindum óbreyttur, þá muni þróun stuðningsins halda áfram með sama hætti og hófst árið 1992 þegar Evrópusambandið hóf að breyta áherslum í stuðningi sínum við landbúnað. Þá var farið að hverfa frá beingreiðslum á framleiðslu og farið að greiða m.a. sk. SFP greiðslur eða “Single Farm Payment” sem eru eingreiðslur á hvert bú óháð framleiðslu. Þessar greiðslur eru reyndar afar umdeildar í dag, enda fá margir jarðareigendur greiðslur þrátt fyrir að þeir framleiði ekki nokkurn skapaðan hlut á jörðum sínum.
Að sögn Versteijlen stendur enn óhögguð sú ákvörðun um að leggja niður kvótakerfið árið 2015, en markmið breytinga kerfisins í kringum endurskoðunina sé meðal annars að reyna að finna út með hvaða hætti megi hafa stjórn á framleiðslunni – án kvóta.
Í hnotskurn:
Endurskoðun á CAP er enn á byrjunarreit en stjórn Evrópusambandsins mun kynna stefnu sína í málinu í nóvember nk. og verða lagðar fram lagalegar tillögur stjórnarinnar sumarið 2011 til umfjöllunar og síðar samþykktar Evrópuþingsins. Óleyst er þó enn stærsta málið: með hvaða hætti á að stjórna framleiðslunni þegar kvótakerfið verður afnumið svo framleiðslan fari ekki úr böndunum með tilheyrandi offramleiðslu og hömluleysi.