Vænlegur valkostur?
11.07.2008
Eins og fram kom hér á síðunni fyrr í vikunni, hefur Sláturfélag Suðurlands hafið innflutning á kjarnfóðri. Landssamband kúabænda fagnar þessu framtaki SS og óskar fyrirtækinu velfarnaðar á þessum vettvangi. Það verð sem blöndurnar eru falboðnar á, veldur hins vegar miklum vonbrigðum og raunar furðu. Blöndurnar, sem eru allar án fiskimjöls, eru 6-7.000 kr dýrari pr. tonn en hliðstæðar blöndur sem þegar eru á markaði. Það verður því að teljast hæpið að viðskiptin verði mjög lífleg, miðað við þessar forsendur.
Landssamband kúabænda hefur í dag aflað upplýsinga í Danmörku um verð á þremur af þeim fjórum blöndum sem SS býður uppá og eru framleiddar af DLG. Listaverð á blöndunum, kr. pr. tonn, þar og hér er eftirfarandi:
Kjarnfóðurblanda | Listaverð hjá SS, skv. heimasíðu | Listaverð hjá DLG 11.07.2008 | Mismunur, kr. | Mismunur, % | Listaverð hjá DLG, dkk. |
Kúafóður 16 Malko Lac Græs | 63.823 | 36.599 | 27.224 | 74% | 2.270 |
Kúafóður 20 Malko Lac III | 64.286 | 38.373 | 25.913 | 68% | 2.380 |
Nautaeldisfóður Grønkalv Slut | 72.950 | 32.568 | 40.382 | 124% | 2.020 |
Hér er miðað við gengi DKK 16,123 sem er opinbert gengi skv. Seðlabanka Íslands í dag, 11. júlí. Verðmunurinn er þó í raun eitthvað meiri, þar sem ólíklegt má telja að SS kaupi inn á listaverði. Ekki fékkst verð á kálfaeldisblöndu DLG, Grønkalv Start.
Að sjálfsögðu má eiga von á verðmun hér og í Danmörku, þar sem eitthvað kostar að koma fóðrinu til landsins og þá þarf að greiða af því 0,9% fóðureftirlitsgjald, sem einnig er innheimt af innfluttum hráefnum til fóðurgerðar. Í því samhengi má benda á að flutningskostnaður á byggi frá Danmörku til Íslands hefur verið á bilinu 2,59-4,30 kr/kg það sem af er þessu ári, skv. upplýsingum af vef Hagstofu Íslands. Þær tölur miðast við flutning í lausu, flutningur í gámum er dýrari en það.
Þá vekur innbyrðis röðun á verði blandanna nokkra undrun, þar sem nautaeldisfóðrið er áberandi dýrast hér af þessum þremur blöndum, þrátt fyrir að vera ódýrast í Danmörku.
Það er því óhætt að reikna með að svigrúm til verðlækkunar sé verulegt. Raunar hlýtur það að vera forsenda þess að SS nái fótfestu á þessum markaði, sem gera má ráð fyrir að sé markmið þess.
Að lokum er rétt að benda lesendum á grein Þóroddar Sveinssonar, tilraunastjóra Lbhí á Möðruvöllum um samanburð á kjarnfóðurblöndum með og án fiskimjöls. Greinin birtist á bls. 22-23 í Bændablaðinu þann 27. maí sl. og er að finna hér.