Beint í efni

Úttektir á þróunar- og jarðabótum

11.09.2008

Haustin eru annamesti tími margra ráðunauta. Þá fara m.a. fram lambamælingar og úttektarvinna vegna þróunar- og jarðabóta. Oft eru það sömu ráðunautarnir sem að sinna báðum verkefnunum.

Úttektarvinnan er að þessu sinni óvenju mikil þar sem styrkur fæst bæði á gras- og grænfóðurrækt til viðbótar við annað sem styrkt hefur verið undanfarin ár, en alls eru umsóknarflokkarnir 11. Það er því enn mikilvægara en áður að bændur óski eftir úttektum sem fyrst svo skipuleggja megi hauststörfin sem best.

Meginreglan við umsóknir um þróunar- og jarðabótastyrk er sú að bændur sækja um styrk fyrir 1. mars og fá svar í apríl um hvort umsóknin sé samþykkt og þá hversu hár styrkurinn gæti orðið. Síðan óska bændur eftir því að úttektarmaður komi og taki framkvæmdina út að haustinu þegar henni er lokið. Þetta á t.d. við um styrk til að bæta vinnuaðstöðu í gripahúsum og styrk við að koma upp vatnsveitu.

Í nokkrum tilfellum er þó ekki þörf á að sækja um fyrir 1. mars heldur nægir að óska eftir úttekt að haustinu. Þetta á m.a. við um styrki til korn-, grænfóður- og grasræktar, skurðahreinsunar og kölkunar. Þessari ósk þurfa þó að fylgja grunnupplýsingar um styrkþegann svo sem kennitala og reikningsnúmer. Einnig er mikilvægt að upplýsingar um staðsetningu akra og nýrækta fylgi ósk um úttekt svo einfalda megi úttektavinnuna.

Reglur og umsóknareyðublað má nálgast hér
Hægt er að óska eftir úttekt rafrænt hér