Um BÍ
Búgreinadeildir
Málaflokkar
Til baka
Um Alifuglabændur
Upplýsingar
Kolefnisspor
Til baka
Til baka
Um Hross BÍ
Fræðsla
FHB
Til baka
Um NautBÍ
Upplýsingar
LK
Til baka
Sauðfjárbændur
Upplýsingar
Til baka
Starfið
Stjórnsýsla
Til baka

Úttektarskýrsla um Matvælastofnun komin út

28.03.2017

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur birt skýrslu með niðurstöðum úttektar á Matvælastofnun þar sem farið er yfir starfsemi stofnunarinnar, þróun, verklag og leiðir til úrbóta. Tilgangur verkefnisins var að yfirfara starfsemi MAST og gera tillögur um úrbætur þar sem þess er talin þörf. 

Skýrslan er unnin af Bjarna Snæbirni Jónssyni stjórnunarráðgjafa og Ólafi Oddgeirssyni dýralækni. Í úttektinni er rýnt í starfsemi Matvælastofnunar, fjölgun verkefna og málaflokka sem stofnuninni hefur verið falið, vinnuálag og mannauð til að sinna lögbundnum skyldum. Fyrirkomulag eftirlits hérlendis er borið saman við fyrirkomulag matvælaeftirlits og dýravelferðar í Evrópu. Brúneggjamálið er sérstaklega skoðað og verklag stofnunarinnar í dýravelferðarmálum. Þá eru lagðar fram tillögur að úrbótum, s.s. tækifæri til úrbóta í innra starfi stofnunarinnar, sameiningu eða samþættingu matvælaeftirlits Matvælastofnunar og heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga og möguleika á útvistun afmarkaðra verkefna til sjálfstætt starfandi skoðunarstofa.
 
Bændasamtök Íslands og Samtök iðnaðarins fóru þess á leit við höfunda, með bréfi dags 15. desember 2016, að það ástand sem skapaðist með verkfalli dýralækna árið 2015 yrði tekið sérstaklega til skoðunar og hvernig tryggja mætti að það ástand sem þá skapaðist endurtæki sig ekki.
 
Á vef Mast segir að stofnunin muni vinna áfram með tillögur skýrsluhöfunda í samstarfi við þriggja manna verkefnisstjórn sem ráðuneytið mun skipa í kjölfarið með það að markmiði að styðja frekar við starfsemi stofnunarinnar. Samhliða þeirri vinnu verður unnið áfram að nýjum lögum um Matvælastofnun sem skilgreina munu betur hlutverk stofnunarinnar, skyldur og heimildir.

Bent á ákveðna veikleika í starfi Matvælastofnunar og stjórnvalda
Á vef atvinnuvegaráðuneytisins er haft eftir Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur landbúnaðarráðherra að hún líti á skýrsluna sem mikilvægt verkfæri til að efla og styrkja matvælaeftirlit og dýravelferð.

"Í skýrslunni er bent á ákveðna veikleika, bæði í starfi Matvælastofnunar og stjórnvalda sem við tökum alvarlega. Í skýrslunni koma hins vegar fram skýrar tillögur hvernig við getum bætt úr þessum ágöllum og nú skiptir öllu að horfa fram á við og vinna staðfastlega að úrbótum. Ég mun nú þegar skipa starfshóp sem mun stýra úrvinnslu á þeim tillögum sem lagðar eru til í skýrslunni varðandi mótun matvælastefnu og nauðsynlega uppbyggingu á innra starfi Matvælastofnunar. Þá mun ég funda með Sambandi íslenskra sveitarfélaga um það hvernig megi einfalda matvælaeftirlit og gera það skilvirkara,“ segir Þorgerður Katrín í tilvitnun á vef ráðuneytisins.

Skýrsla um Matvælastofnun - pdf