Beint í efni

Útlit fyrir minni vöxt í heimsframleiðslu á mjólk

28.01.2003

Bandaríska landbúnaðarráðuneytið (USDA) hefur gefið út nýja skýrslu um útlit með viðskipti með mjólkurafurðir í heiminum á árinu (World Dairy Markets and Trade). Í skýrslunni kemur fram að gert er ráð fyrir því að heimsframleiðslan aukist lítillega, en viðskipti á milli landa aukist nokkuð.

Þess er vænst að heildarframleiðsla mjólkur, í 20 stærstu mjólkurframleiðslulöndum heims, aukist einungis um 0,3% en til samanburðar hefur aukningin numið 1% að meðaltali síðustu fjögur ár.

 

Þrátt fyrir þessa óverulegu aukningu í framleiðslu, er þess vænst að viðskipti muni aukast umfram framleiðsluna á árinu. Þannig er ráðgert að innflutningur á ostum til Bandaríkjanna muni aukast um nærri 3%, Japansmarkaðurinn komist í jafnvægi á árinu og innflutningur á mjólkurafurðum til Evrópusambandsins muni aukast. Þá er búist við því að innflutningur á smjöri og undanrennudufti til Rússlands muni aukast verulega m.v. árið 2002.

 

Heildarniðurstaðan bendir því til þess að birgðastaða í lok þessa árs ætti að vera mun minni en í árslok 2002.