Beint í efni

Útlit fyrir minni framleiðslu af hveiti og maís

25.11.2011

Samkvæmt nýrri spá Alþjóðlega korneftirlitsins (International Grains Council) er nú talið að heimsframleiðsla á hveiti og maís verði heldur minni en fyrri spár gerðu ráð fyrir. Samhliða virðist vera töluvert meiri eftirspurn eftir þessum mikilvægu korntegundum en fyrri spár gerðu ráð fyrir og því lækkar birgðastaða þeirra nokkuð. Nú er talið að heimsframleiðslan á hveiti verði 683 milljón tonn sem er einni milljón tonnum minni framleiðsla en fyrri spá gerði ráð fyrir og að framleiðslan á maís verði 853 milljón tonn sem er tveimur milljón tonnum minna en áður var talið.
 
Á sama tíma hefur eftirspurnin verið meiri sem nemur tveimur milljón tonnum af hveiti þannig að mismunurinn á reyndinni í dag og fyrri spá eru í raun þrjár milljónir tonna. Alls er nú talið að birgðir af hveiti í heiminum dugi til 108 daga notkunar og hefur birgðastaðan minnkað um 1 dag á milli ára. Eftirspurn eftir maís hefur dregist saman í takti við minni framleiðslu og því hafa ekki orðið miklar breytingar á birgðastöðu maís en þó er staðan ekki góð og birgðirnar taldar nema 52ja daga notkun en á sama tíma fyrir ári voru birgðirnar metnar duga til 57 daga notkunar.
 
Afar óljóst er hvaða áhrif þessi nýja skýrsla hefur á markaði með korn en í síðustu viku féll verð á hveiti bæði í Evrópu og Ameríku/SS.