Útlit fyrir hækkað verð á hveiti
07.07.2012
Bandaríska landbúnaðarstofnunin (USDA) hefur nú gefið út áætlun um kornuppskeru ársins og því miður stefnir í verulegan samdrátt í framleiðslunni, sér í lagi á hveiti. Ef satt reynist mun því eftirspurn eftir öðrum korntegundum stíga með tilheyrandi áhrifum á fóðurverð. Það er sérstaklega útlitið í Rússlandi sem er ekki nógu gott, sem og víða annarsstaðar í Evrópu og alls er talið að heildaruppskeran á hveiti muni verða 672,1 milljón tonn sem er 5,5 milljón tonnum minna er spár gerðu ráð fyrir fyrr á árinu.
Skamms er að minnast uppskerubrestsins í Rússlandi fyrir fáum árum, sem hafði gríðarleg hækkunaráhrif á kornverð um allan. Telja sumir fræðimenn jafnframt að hátt verð á korni hafi leitt til þess rósturs sem víða er enn í hinum fátækari hluta heimsins. Enn er þó skammt liðið á árið og því gæti ástandið lagast þegar og ef veðrið verður hentugara til kornþroska/SS.