Beint í efni

Útlit fyrir góða uppskeru í Úkraínu

28.04.2011

Undanfarnar vikur hafa verið erfiðar fyrir kornframleiðendur víða um heim þar sem úrkomuleysi hefur hrjáð mörg lönd. Þessi ótíðindi hafa hleypt upp verðinu á korni á heimsmarkaði og er það nú í hæstu hæðum. Nú berast hinsvegar góð tíðindi frá Úkraínu, einum stærsta útflytjanda á korni í heiminum. Þar kemur haustsáning vel undan annars hörðum vetri og útlit fyrir afar góða lifun á haustsáðu korni. Fyrirtækið MHP, sem er með 70 þúsund hektara af korni í Úkraínu, metur nú akra sína „mjög góða“ sem er í góðu samræmi við yfirlýsingar sambærilegra stórfyrirtækja í kornframleiðslu.

 

Á þessum tímapunkti er auðvitað erfitt að spá fyrir um uppskeruna í ár, en ef ekki koma til miklir þurrkar næstu vikurnar má búast við jákvæðum fréttum af kornverði strax um mitt sumar. Langir þurrkakaflar geta þó haft verulega neikvæð áhrif enda er ekki algengt að vökvunarbúnaður sé notaður í stærstu kornframleiðslulöndum heims /SS.