
Útgjöld til mat- og drykkjarvörukaupa hlutfallslega lægst í hálaunalöndum
07.01.2009
Íslendingar verja 14,6% af útgjöldum heimilanna (án eigin húsnæðis) til matar- og drykkjarvörukaupa. Hlutfallið er lægra en í mörgum okkar nágrannalöndum og sem fyrr eru það ríki Austur-Evrópu sem eyða hlutfallslega mest af sínum tekjum í mat og drykkjarvörur.
Það er Hagstofa Evrópu sem safnar upplýsingum um verðlag og útgjöld neytenda í löndum Evrópska efnahagssvæðisins auk fleiri landa sem stefna á ESB-aðild, s.s. Króatíu og Tyrklands. Samanburður á útgjöldum er gerður án útgjalda vegna eigin húsnæðis. Þegar útgjöld til matar- og drykkjarvörukaupa eru skoðuð sem hlutfall af heildarútgjöldum samkvæmt vísitölu neysluverðs án eigin húsnæðis á árinu 2008 var Ísland í 9. sæti. Lægst er hlutfallið í Sviss eða 10,7%, í Bretlandi 10,9% en þar er ekki virðisaukaskattur á matvöru, og í Luxemborg 11,2%. Noregur er í 6. sæti (13.3%) og Ísland er síðan í 9. sæti með 14,6% af útgjöldum (án eigin húsnæðis) til matar- og drykkjarvörukaupa. Á hæla okkar koma síðan Svíþjóð (15%), Finnland (15,4%) og Danmörk (15,5%).
/EB tók saman