Beint í efni

Útflutningur mjólkurafurða Argentínu meiri en kjötafurða!

29.02.2012

Í fyrsta sinn í sögu Argentínu varð útflutningur mjólkurafurða síðasta ár meiri en nautakjötafurða, en alls voru flutt frá landinu 407 milljón kg mjólkur. Þá var verðmæti útflutningsins einnig meira en verðmæti kjötútflutningsins frá landinu en heildarverðmæti hinna útfluttu mjólkurafurða var 1.527 millljónir dollara eða um 190 milljarðar íkr. Verðmæti útflutningsins var því um 467 Íkr/kg.

 

Árið 2011 varð mikil aukning mjólkurframleiðslu í Argentínu frá fyrra ári og jókst útflutningurinn á milli ára um heil 32% en útflutningur á kjöti minnkaði hinsvegar um 15% á sama tíma.

 

Ástæður þess að nautakjötsframleiðslan hefur dregist saman eru rakin til bæði veðurfars en ekki síður minnkandi stuðningi hins opinbera við framleiðsluna. Frá árinu 2010 til síðasta árs lokuðu 120 kjötvinnslur í landinu samhliða verulegri fækkun sláturgripa. Þetta hefur jafnframt leitt til þess að 14.400 manns hafa nú misst vinnuna við slátrun og úrvinnslu nautakjöts/SS.