Útbreiðsla mjaltaþjóna á Norðurlöndunum í árslok 2007
16.05.2008
Í lok ársins 2007 voru 2.709 mjaltaþjónar í notkun á 1.728 kúabúum á Norðurlöndunum. Fjölgun mjaltaþjónabúa milli ára var 29,7% og er þessi tækni nú í notkun á 4,3% kúabúa í þessum heimshluta. Í töflunni hér að neðan má sjá skiptingu milli landa en eins og gefur að skilja eru flestir mjaltaþjónar í Danmörku, sem er lang umfangsmesta mjólkurframleiðslulandið í. Framleiðslan þar er um 4,5 milljarðar lítra, Svíþjóð er í öðru sæti með 3 milljarða lítra, Finnland í þriðja með 2,3 milljarða, Noregur í fjórða sæti með einn og hálfan milljarð lítra og Ísland rekur lestina með 125 milljón lítra framleiðslu árið 2007.
Land | Fjöldi búa | Fjöldi mjaltaklefa |
Danmörk | 608 | 1.298 |
Svíþjóð | 433 | 641 |
Finnland | 311 | 369 |
Noregur | 297 | 307 |
Ísland | 79 | 94 |
Alls | 1.728 | 2.709 |
Ef fjöldi mjaltaþjónabúa er tekið sem hlutfall af öllum kúabúum, þá er það hæst í Danmörku 12,9% en næst hæst hér á landi, 10,7%. Ef miðað er við að um hvern mjaltaþjón séu 50 kýr, þá voru tæp 19% íslenskra kúa mjólkaðar með þessari tækni í lok síðasta árs, á meðan hún var notuð við mjaltir á 12% danskra kúa. Ríflega 20% af mjólkinni koma frá mjaltaþjónabúum hér á landi en 12,8% mjólkurmagnsins í Danmörku.
Þess má geta að fyrsti mjaltaþjónn var settur upp hér á landi haustið 1999 og er enn í notkun.
Samantekt Snorra Sigurðssonar, meðlims í tæknihópi NMSM er að finna hér.