
Úranus 10081 besta nautið í árgangi 2010
06.04.2018
Á fagþingi nautgriparæktarinnar sem nú stendur yfir á Hótel Selfossi var afhent viðurkenning fyrir besta nautið fætt árið 2010 frá Nautastöð Bændasamtaka Íslands. Að þessu sinni hlaut kynbótanautið Úranus 20081 frá Hvanneyri þessa nafnbót. Guðný Helga Björnsdóttir, formaður fagráðs í nautgriparækt, afhenti Agli Gunnarssyni og Hafþór Finnbogason viðurkenninguna og við það tækifæri var meðfylgjandi mynd tekin.
Guðmundur Jóhannesson, ábyrgðarmaður í nautgriparækt hjá RML, fór nokkrum orðum um Úranus fyrir afhendingu verðlaunanna. Þar kom m.a. fram að Úranus var fæddur 21. nóvember 2010 á Hvanneyri í Andakíl í Borgarfirði og var undan Síríus 02032 frá Leirulækjarseli og Urði 1229. Ræktendur Úranusar er Hvanneyrarbúið ehf., þá Grímshagi ehf.
Í umsögn um dætur Úranusar kemur fram að þær eru gríðarlega mjólkurlagnar en fituhlutfall í mjólk er undir meðallagi en próteinhlutfall liggur nærri því. Þetta eru stórar kýr, háfættar, boldjúpar með miklar útlögur en aðeins veika yfirlínu. Malirnar eru breiðar, eilítið hallandi og nokkuð flatar. Fótstaða er góð, bein, rétt og sterkleg. Júgurgerðin er öflug, mikil júgurfesta, áberandi júgurband og júgrin ákaflega vel borin. Spenar eru vel gerðir, hæfilega grannir og stuttir en örlítið gleitt settir. Mjaltir eru frábærar og mjög lítið er um galla í mjöltum. Skap þessara kúa er mjög gott.
Óskar Landssamband kúabænda ræktendum Úranusar til hamingju með viðurkenninguna með þökkum fyrir ræktun þessa mikla kynbótagrips.