Uppskerubrestur á maís í Noregi
26.08.2015
Útlit er fyrir að maís uppskeran á norskum kúabúum verði afar lítil í ár en kalt vor og sumar gerði það að verkum að maísinn hefur vaxið mun minna en hingað til og telja þarlendir bændur að maísþroskinn sé amk. mánuði seinna á ferðinni en undanfarin ár. Maís hefur annars vaxið ágætlega í suður Noregi og gefið allt að 15 þúsund fóðureiningar af hektarann, en meðaltalsuppskeran er þó minni eða um 10 þúsund fóðureiningar af hektaranum.
Maís er sérstök planta og þarf mikinn hita til þess að vaxa. Kuldaskeið í upphafi vaxtarferilsins virðist koma sérlega illa við þessa plöntu og því er það svo að þó verulega hlýtt hafi verið í bæði júlí og ágúst þá tekur plantan ekki við sér þar sem vorið var of kalt. Telja jafnvel sumir bændur að þeir megi teljast góðir ef það munu nást 3 þúsund fóðureiningar af hektaranum í ár/SS.