Uppgjör skýrsluhaldsins í júlí komið út hjá BÍ
12.08.2010
Niðurstöður skýrsluhaldsins fyrir júlí eru nú komnar út hjá BÍ. Alls komu 611 bú til uppgjörs og eru það hlufallsleg skil upp á 92% en í júlí árið 2009 komu til uppgjörs 89% skýrsluhaldsbúanna. Alls eru skýrslufærðar 22.256 árskýr, sem er fækkun um 475 árskýr frá fyrra mánuði . Líkt og liðna mánuði sveiflast landsmeðalnytin mikið á milli mánaða, sem skýrist að hluta af mismunandi bakgrunnsupplýsingum. Upplýsingar um meðalnyt
þarf því að skoða í því ljósi en sl. 12 mánuði mælist hún 5.327 kg/árskú og eykst lítillega frá því í júní eða um 29,2 kg
Samtals reiknast nú 17 bú yfir 7.000 lítra meðalnyt sem er sami fjöldi búa og var í júní.
– Mestar meðalafurðir búa með færri en 40 árskýr eru á bænum Egg en þar er meðalnytin 7.815 kg og árskúafjöldinn 34,0.
– Mestar meðalafurðir búa með 40-80 árskýr eru í Reykjahlíð en þar er meðalnytin 7.612 kg/árskúna og árskúafjöldinn 56,6.
– Mestar meðalafurðir búa með fleiri en 80 árskýr eru í Gunnbjarnarholti en þar er meðalnytin 7.504 kg/árskúna og árskúafjöldinn 109,3.
Allar nánari upplýsingar má lesa á upplýsingasíðu BÍ um skýrsluhaldið með því að smella hér.