Beint í efni

Uppgjör skýrsluhaldsins 2010 komið á vefinn

27.01.2011

Uppgjör afurðaskýrsluhalds nautgriparæktarinnar árið 2010 er komið á vefinn og má nálgast hér. Fjallað er um niðurstöðurnar í 2. tbl. Bændablaðsins á bls. 21.

Eftirfarandi pistill eftir Magnús B. Jónsson, Gunnfríði E. Hreiðarsdóttur og Sigurð Kristjánsson var birtur í Bændablaðinu:
Skýrslur nautgriparæktarinnar hafa nú verið gerðar upp fyrir árið 2010. Ítarlegar verður fjallað um skýrsluhaldið og niðurstöðurnar síðar í Bændablaðinu. Skýrsluhaldið hefur tekið allmiklum breytingum á síðastliðnum árum með tilkomu skýrsluhaldskerfisins HUPPU og gæðastýrðs skýrsluhalds í nautgriparækt. Óhætt er að segja að bændur hafi brugðist fljótt og vel við breyttum reglum varðandi skýrsluhaldið og getum við ekki verið annað en ánægð með þann árangur sem náðst hefur í eflingu þess.

Eins og menn hafa tekið eftir hefur nokkur tími liðið frá uppgjöri ársins til birtingar ársuppgjörsins. Ástæða þess er sú að nú var mönnum gefinn kostur á að gera athugasemdir við uppgjör og koma leiðréttingum á framfæri eftir fyrstu keyrslu uppgjörsins. Áður hafði síðasti skiladagur skýrslna verið látinn gilda sem síðasti dagur til að koma gögnum inn til uppgjörs.

Árið 2010 voru 607 bú skráð í skýrsluhaldið en voru 614 árið 2009 og 622 árið 2008. Meðalbúið heldur áfram að stækka og er í ár 38,6 árskýr en var 37,1 árskýr árið 2009.

Skagafjörður afurðahæsta uppgjörssvæðið
Meðalafurðir yfir landið standa nánast í stað frá síðasta ári og eru nú 5.342 kg/árskú en voru 5.358 kg/árskú árið 2009. Líkt og áður er Skagafjörður afurðahæsta uppgjörssvæðið með 5.817 kg/árskú og fast á hæla þeirra fylgja svo Austur-Skaftafellssýsla og Snæfellsnes. Flest eru skýrsluhaldsbúin í Árnessýslu, en búin eru að meðaltali stærst í Eyjafirði og minnst í Vestur-Skaftafellssýslu og Suður-Þingeyjarsýslu og er sú staða óbreytt frá fyrra ári.

Hóll í Sæmundarhlíð afurðahæsta búið
Afurðir einstakra búa eru ákaflega breytilegar. Það er ánægjulegt að búum með miklar afurðir er að fjölga og nú eru 14 bú með 7.000 kg/árskú eða meira í meðalafurðir. Það er hinsvegar áhyggjuefni hversu lágar meðalafurðir eru á einstaka búum og dregur síst saman með lægstu og hæstu búunum. Afurðahæsta búið að þessu sinni er Hóll í Sæmundarhlíð í Skagafirði en þar mjólka 34,4 árskýr að meðaltali 7.818 kg. Ábúendur á Hóli eru þau Jón Grétarsson og Hrefna Hafsteinsdóttir. Í öðru sæti er svo búið í Tröð í Kolbeinsstaðahreppi með 7.802 kg/árskú og í þriðja sæti búið á Hraunhálsi í Helgafellssveit með 7.764 kg/árskú.

Örk á Egg er afurðahæst
Afurðahæsti gripurinn á skýrslu árið 2010 var kýrin Örk 166 á Egg í Hegranesi og mjólkaði hún 12.418 kg. Örk var einnig afurðahæst í fyrra og árið þar áður. Örk er fædd árið 1998, er því á þrettánda aldursári og fyllir orðið hóp einstakra afrekskúa í íslenskri nautgriparækt. Önnur afurðahæsta kýrin er Randa 14 á Hvanneyri en hún skilaði 12.115 kg og eru þessar kýr þær einu sem mjólka yfir 12.000 kg þetta árið. Alls mjólkuðu 59 kýr yfir 10.000 kg á árinu 2010. Afurðahæsta kýrin hvað verðefni varðar var Örk 166 sem skilaði samtals 953,7 kg.

Þeim fjölgar sem ná góðum árangri
Árið 2010 er ekki metár hvað varðar afurðir einstakra kúa eða búa. Það sem einkennir hins vegar skýrsluhaldið síðastliðið ár er að stöðugt fjölgar þeim búum sem ná góðum árangri og þeim kúm sem skila miklum afurðum. Þá hefur tilkoma gæðastýrðs skýrsluhalds skilað auknum stöðugleika í gagnasöfnun, sem þegar er farið að skila sér í ræktuninni.