Beint í efni

Ungnautaspjöld og nautaskrá

08.08.2012

Nýlega kom út seinni nautaskrá ársins 2012. Skráin er með sama sniði og sú fyrri hvað varðar upplýsingar um nautin. Reyndu nautin í skránni eru 22 að þessu sinni og tilheyra fjórum nautaárgöngum, 2003 til 2006.

Þar af eru fjögur naut úr árgangi 2003, allt notadrjúg naut og kemur Gyllir 03007 aftur inn í skrána. Þrjú naut eru úr árgangi 2004, þar af tvö sem voru notuð sem nautsfeður. Endanlegri afkvæmarannsókn er nú lokið á árgangi 2005 og úr þeim árgangi eru níu naut. Loks eru sex naut úr árgangi 2006 en afkvæmarannsókn þess árgangs mun ljúka í byrjun árs 2013.Naut úr árgangi 2006 eru Koli 06002 frá Berustöðum í Ásahreppi, Baldi 06010 frá Baldursheimi í Hörgársveit, Logi 06019 frá Kristnesi í Eyjafjarðarsveit, Kambur 06022 frá Skollagróf í Hrunamannahreppi, Dynjandi 06024 frá Leirulækjarseli í Borgarbyggð og loks Hjarði 06029 frá Hjarðarfelli í Eyja- og Miklaholtshreppi á Snæfellsnesi. Nautin í skránni eru synir átta nautsfeðra og eru flest synir Stígs 97010 frá Oddgeirshólum, eða tólf naut, undan Fonti 98027 frá Böðmóðsstöðum eru fjögur naut og þau eru öll úr yngsta árgangnum. Soldán 95010 frá Hrólfstaðahelli á tvo syni í skránni og Seifur 95001 frá Hundastapa, Teinn 97001 Akbraut, Punktur 94032 frá Skipholti III og Prakkari 96007 frá St. Hildisey II eiga einn son hver.

Sex nautsfeður
Nautsfeður að þessu sinni verða sex: Vindill 05028 frá Ytri-Tjörnum, Birtingur 05043 frá Birtingaholti I, Koli 06003 frá Sólheimum, Frami 05034 frá Skúfsstöðum í Hjaltadal, Baldi 06010 frá Baldursheimi Hörgársveit og Kambur 06022 frá Skollagróf. Það að naut sé merkt sem nautsfaðir merkir fyrst og fremst að við mælumst til þess að nautsmæður séu sæddar með sæði úr þessum nautum frá og með útgáfu skrárinnar þar til næsta skrá tekur gildi. Þar sem nautsfeðrum er nú skipt út nokkuð örar en áður var, þá skal ítrekað að þó naut falli af nautsfeðraskrá vill Nautastöðin eftir sem áður vita af nautkálfum undan þeim og nautsmæðrum. Þau naut sem hafa verið nautsfeður gætu átt ófædda kálfa.

Nautaspjöld bæði á Netinu og í prentuðu formi
Þó nautin í þessari skrá séu öll öflug og líkleg til kynbóta, sem mun sjá stað í ræktun komandi ára, er nauðsynlegt að minna enn á þá gullvægu reglu að nota óreynd naut til jafns við þau reyndu og huga vel að skyldleikanum við nautavalið. Þannig og aðeins þannig treystum við ræktun kúnna til lengri framtíðar. Nú eru fyrstu ungnautin í árgangi 2011 að komast í notkun og verið að senda út fyrsta ungnautaspjaldið með upplýsingum um átta ungnaut sem farið verður að bjóða innan tíðar. Upplýsingar á spjöldunum eru þær sömu og verið hefur og sést á þeim að hér er um mjög efnileg ungnaut að ræða. Feður þeirra eru úr þeim sterka árgangi 2002 og mæður ýmist ungar og mjög efnilegar kýr eða mjólkurkýr sem hafa sýnt mikla afurðagetu um langan tíma. Vegna eindreginna tilmæla verður ungnautaspjöldunum nú dreift bæði á Netinu og prentuðum.

PDF
Nautaskrá - sumarið 2012
Ungnautaspjald - naut til notkunar vegna afkvæmaprófana