Beint í efni

Undirbúningur kvótamarkaðar gengur vel

11.10.2010

Stefnt er að því að fyrsti markaður með greiðslumark í mjólk verðin haldinn 1. desember n.k. eins og reglugerð ráðherra landbúnaðarmála frá 17. maí sl. hefur gert ráð fyrir. Aldrei hefur staðið til að opna tímabundið fyrir greiðslumarksviðskipti með gamla laginu, eins og gefið var í skyn á forsíðu Bændablaðsins 26. ágúst sl. Undanfarnar vikur hafa fulltrúar LK, BÍ og Matvælastofnunar unnið ötullega að því að koma kvótamarkaðinum á fót og gengur sú vinna vel. Skipulag markaðarins hefur verið kynnt fyrir héraðsráðunautum og aðilum úr fjármálageiranum, á fundum í Reykjavík, Selfossi og Akureyri. Stefnt er að fleiri slíkum fundum á næstunni. Þá hefur talsvert af efni verið birt í Bændablaðinu um málið, auk þess sem ýtarleg kynning verður á kvótamarkaðnum á haustfundum LK sem framundan eru.

Eyðublöð vegna kaup- og sölutilboða verða aðgengileg mjög fljótlega á heimasíðu MAST. Þau skal síðan senda í lokuðu umslagi til stofnunarinnar, merkt „kvótamarkaður“ og skulu hafa borist í síðasta lagi 25. nóvember n.k. til hennar. Þeir bændur sem hafa í hyggju að eiga viðskipti á markaðnum, geta því farið að huga að gerð tilboða og nauðsynlegum gögnum sem þurfa að fylgja.

 

Seljendur þurfa að útvega staðfestingu á eignarhaldi að lögbýli, samþykki eiganda ef um leiguliða er að ræða, þinglýsingarvottorð og veðleyfi. Kauptilboðum skal fylgja bankaábyrgð og munu bankar væntanlega gera kröfu um rekstraráætlanir vegna útgáfu þeirra í flestum tilfellum. Slík áætlanagerð tekur tíma og því nauðsynlegt að huga að henni fyrr en síðar.  

 

Næstu skref í ferlinu eru að útbúa greiðslumiðlun milli kaupenda og seljenda. Stefnt er að því að kynna það fyrirkomulag í næsta tölublaði Bændablaðsins, sem kemur út 21. október nk. Hér er að finna minnisblað framkvæmdastjóra LK sem lagt hefur verið fram á kynningarfundunum. Hér er að finna skjal sem sýnir með myndrænum hætti hvernig markaðurinn virkar og birt var í síðasta Bændablaði.