
Undirbúningur fyrir Kýr 2003 í fullum gangi
29.07.2003
Bændur og búalið á Norðurlandi æfa nú af kappi fyrir kúasýninguna Kýr 2003 sem haldin verður þann 8. ágúst n.k. að Hrafnagili í Eyjafirði. Að sögn Gunnfríðar E. Hreiðarsdóttir, framkvæmdastjóra sýningarinnar, hefur allur undirbúningur gengið vel. Þannig munu bændur frá Skagafirði, Eyjafirði og Þingeyjasýslum leiða saman gripi sína og mun besti gripur í hverjum flokki fá sérstök verðlaun.
Sýningin er nú haldin norðan heiða í fyrsta sinn, en á sýningunni verður keppt í eftirfarandi flokkum: flokki mjólkurkúa, flokki fyrsta kálfs kvígna, unglingaflokki og barnaflokki en í tveimur síðast töldu flokkunum sýna börn og unglingar kálfa sína, sem þau hafa verið að temja í sumar.
Sýningin, sem fer fram í samvinnu við Handverkshátíðina á Hrafnagili, verður undir berum himni og hefst á því að Guðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra, setur hana kl. 13:00. Margt annað verður einnig á staðnum og má þar nefna sveitafittness að hætti Guðmundar Hallgrímssonar, ráðsmanns á Hvanneyri, kynningu á vörum og þjónustu auk ýmiskonar fróðleiks og skemmtunar fyrir alla fjölskylduna.