
Umsóknarfrestur vegna innlausnarmarkaðar til 4. febrúar
30.01.2017
Fyrsti innlausnarmarkaður ríkisins verður 1. mars næstkomandi. Þeir sem ætla sér að biðja um innlausn eða sækja um kaup á greiðslumarki þurfa að skila inn umsóknum fyrir 4. febrúar. Það er gert á þjónustugátt MAST en þar er að finna eyðublað nr. 7.14 – Innlausn greiðslumarks mjólkur og eyðublað 7.18 – Kaup á greiðslumarki mjólkur. Með beiðni um innlausn á greiðslumarki skal fylgja staðfesting um eignarhald á lögbýli og samþykki ábúanda, sameigenda og veðhafa í lögbýlinu. Beiðni um innlausn og tilboð um kaup er bindandi frá skiladegi beiðninnar um innlausn/umsóknar um kaup á greiðslumarki.
Fyrir innleyst greiðslumark greiðir ríkissjóður 138 kr./ltr. samkvæmt tilkynningu MAST. Innlausnarvirði greiðslumarks helst óbreytt frá auglýsingardegi innlausnarvirðis til 31. desember 2017. Matvælastofnun skal bjóða til sölu það greiðslumark, sem er innleyst, á sama verði og ríkið greiddi fyrir innlausn.
Framleiðendur sem teljast nýliðar eða hafa framleitt a.m.k. 10% umfram greiðslumark á árunum 2013-2015 skulu hafa forgang að kaupum 50% þess greiðslumarks sem hefur verið innleyst. Það skiptist jafnt á milli forgangshópanna sem skiptist svo hlutfallslega í samræmi við þann lítrafjölda sem þeir óskuðu eftir að kaupa.
Nánar má lesa um reglur innlausnar á greiðslumarki hér.