Beint í efni

Umsóknarfrestur um styrki til áburðarkaupa úr Bjargráðasjóði rennur út í dag

20.08.2009

Umsóknarfrestur til að sækja um styrk til Bjargráðasjóðs vegna áburðarkaupa sumarið 2009 rennur út í dag, 20. ágúst. Aðeins bændur sem standa fyrir búrekstri á lögbýli og greiða búnaðargjald geta sótt um styrkinn. Til að uppfylla skilyrði fyrir styrknum þurfa bændur að leggja fram fram reikninga vegna áburðar sem keyptur er og notaður á vaxtarárinu 2009 (frá 10. ágúst 2008 til og með 10. ágúst 2009). Hafi bóndi keypt áburð eftir 10. ágúst 2008 til notkunar á árinu 2009 má þó leggja þann reikning til grundvallar sé skilyrðum að öðru leyti fullnægt. Umsækjendur skulu skila umsókn ásamt framlögðum reikningum til búnaðarsambanda í síðasta lagi í dag, 20. ágúst 2009.

Héraðsráðunautur mun gera úttekt á reikningunum, þ.m.t. kanna réttmæti þeirra og hvort um eðlilega notkun er að ræða miðað við aðstæður. Umsóknirnar eiga að berast til viðkomandi búnaðarsambands, annað hvort með umsóknareyðublaði eða með vefumsókn sem hvort tveggja er að finna hér.

Athugið að hvort sem sótt er um með umsóknareyðublaði eða sótt um rafrænt á netinu verður eftir sem áður að skila inn afritum af áburðarreikningum til búnaðaðarsambanda ekki síðar en 20. ágúst til að umsóknin hafi eitthvað gildi. Til greina koma reikningar vegna innflutts tún- og akuráburðar sem inniheldur að lágmarki 11% N. Varðandi gróðurhúsaáburð og fljótandi áburð er miðað við að N, P, og K gildi blöndu eða eingildra tegunda samanlagt sé í samræmi við þarfir, að lágmarki 7% N í því samhengi fyrir gróðurhúsaplöntur en 11% fyrir aðrar plöntur til matvæla- eða fóðurframleiðslu.

Enn er ekki ljóst hvaða fjárhæð verður unnt að verja í þetta verkefni þar sem enn er unnið að mati á eignum og skuldbindingum vegna uppgjörs á sjóðnum. Umsóknum ásamt niðurstöðum úttektar þurfa búnaðarsambönd síðan að skila til Bændasamtaka Íslands eigi síðar en 1. september 2009. Stjórn Bjargráðasjóðs setur nánari úthlutunarreglur og ákvarðar um afgreiðslu umsókna. Stefnt er að því að ljúka þeirri afgreiðslu fyrir lok september 2009.