Beint í efni

Umsögn um þingsályktunartillögur vegna ESB – markaðshlutdeild minnkar um 25-50% við inngöngu

18.06.2009

Þann 15. júní skiluðu Landssamband kúabænda og Samtök afurðastöðva í mjólkuriðnaði svohljóðandi umsögn til utanríkismálanefndar Alþingis:

 

Umsögn um ,,Tillögu til þingsályktunar um aðildarumsókn að Evrópusambandinu, þingskjal 38’’, og ,,Tillögu til þingsályktunar um undirbúning aðildar að Evrópusambandinu, þingskjal 54’’.


 Stjórn Landssambands kúabænda og stjórn Samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnaði hafa fjallað um ,,Tillögu til þingsályktunar um aðildarumsókn að Evrópusambandinu, þingskjal 38’’, og ,,Tillögu til þingsályktunar um undirbúning aðildar að Evrópusambandinu, þingskjal 54’’.

 Með hliðsjón af fyrirliggjandi gögnum um líkleg áhrif þess fyrir íslenska nautgriparækt ef Ísland gengi í Evrópusambandið, má fullyrða að aðild hefði í för með sér grundvallarbreytingu til hins verra fyrir íslenska nautgriparækt og íslenska mjólkurvinnslu. Þá hafnaði aðalfundur Landssambands kúabænda 2009 aðild að ESB, og stjórn Samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnaði hefur sömuleiðis hafnað aðild Íslands að ESB.  Það er því sameiginleg niðurstaða Landssambands kúabænda og Samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnaði að leggja til við Alþingi að það hafni umræddum þingsályktunartillögum.

Fari hins vegar svo að ákveðið verði að sækja um aðild að Evrópusambandinu, telja samtökin óhjákvæmilegt að eiga þátt í því að ,,bjarga því sem bjargað verður’’ og leggja mikla áherslu á að eiga virka aðkomu að setningu samningsmarkmiða vegna hugsanlegra aðildarviðræðna og að geta fylgst með framvindu viðræðna.
 
Til að skýra afstöðu samtakanna fylgir greinargerð þeirra um málið:
 1. Umfang og hlutverk greinarinnar:
Nautgriparæktin er stærsta grein íslensks landbúnaðar með um 54 % af heildarveltu árið 2008. Hlutverk hennar er annars vegar að framleiða einn grunnþáttinn í fæðu þjóðarinnar, og hins vegar myndar hún burðarás í byggð og mannlífi í mörgum glæsilegustu héruðum landsins.  Það er því grundvallaratriði fyrir íslenskan landbúnað og íslenskt dreifbýli hvernig nautgriparæktinni reiðir af.

Árið 2008 komu 8,1% brúttótekna í nautgriparækt af framleiðslu nautgripakjöts, 88,6% komu til vegna mjólkurframleiðslu og 3,2% af öðrum þáttum. Tekjurnar vegna kjötsins koma að mestu leyti frá markaðnum en tekjur í mjólkurframleiðslunni voru að 60,6% frá markaðnum en 39,4 %  var stuðningur úr ríkissjóði.

 

2. Nautgripakjötið:
 Nautgripakjöt er hluti af íslenskum kjötmarkaði. Það er annars vegar framleitt sem fylgiafurð mjólkurinnar og hins vegar sem sjálfstæð framleiðsla. Enginn vafi er á því að kjötmarkaðurinn mun breytast verulega ef Ísland gengi í ESB. Það er hins vegar mjög erfitt að meta það í krónum og kílóum hversu mikil áhrifin yrðu fyrir íslenska nautgriparækt. Samdráttur er óhjákvæmilegur.

 

3. Mjólkurframleiðslan og opinberi stuðningurinn:
Mjólkurframleiðslan er eins og að framan greinir það sem mestu máli skiptir fyrir nautgriparæktina. Ekki er ljóst hversu mikill stuðningur yrði við mjólkurframleiðsluna ef Ísland gengi í ESB, en ljóst að þar skiptir afar miklu máli hvaða samningsmarkmið yrðu sett og hvað næðist fram.

 

4. Framleiðslu- og vinnslukostnaður mjólkur:
Í RANNÍS-skýrslunni frá 2001 er komist að þeirri niðurstöðu að framleiðslukostnaður mjólkur á Íslandi sé um 2,5 sinnum hærri hér en í Danmörku. Samanburður á vegum International Farm Comparison Network v. 2007 sýnir að kostnaður hér á landi sé tvöfalt hærri en í Danmörku, eða 110$ hér á móti 55$ í Danmörku pr. 100 kg mjólkur.  Helstu áhrifavaldar í þessu efni eru norðlæg lega landsins, mjög hár fjármagnskostnaður sem tengist háu kvótaverði, mikilli endurnýjun fjósa og háu vaxtastigi, afkastaminna kúakyn en annars staðar gerist, hár fóðurkostnaður og hár vélakostnaður.
 Ekki liggur fyrir hliðstæður samanburður á vinnslukostnaði mjólkur hér í samanburði við nágrannalöndin, en vegna smæðar og þess að hér er mjög hátt þjónustustig við verslanir og neytendur, má gera ráð fyrir að samanburðurinn verði talsvert óhagstæður fyrir Ísland.


5. Mjólkurframleiðslan, mjólkuriðnaðurinn og innlendi markaðurinn:
 Viðfangsefnið verður enn flóknara þegar kemur að markaðnum og þeim hluta teknanna sem kemur frá honum.
 Árið 2008 var heildarsala mjólkurvara m.v. prótein 117 milljónir lítra. Með öðrum orðum, íslenskir notendur mjólkurvara keyptu mjólk og mjólkurvörur úr þessu magni mjólkur. Þetta magn skiptist í grófum dráttum þannig í flokka að 47,4 milljónir lítrar mjólkur fóru til notenda sem ostur, 43,6 milljónir lítra var hvers konar drykkjarmjólk, í skyrið fóru 11,8 milljónir lítra og í mjólkurduft fóru 6,7 milljónir lítra. Í aðra vöruflokka fóru 7,5 milljónir lítra. Miðað við reynslu erlendis frá og ýmsar athuganir og greiningar á íslenska mjólkurvörumarkaðnum, má ætla að hlutdeild innlendra vara á ferskvörumarkaðnum yrði mjög há, þó svo að til samkeppni kæmi við innflutning. Með sama hætti verður að gera ráð fyrir mun lægri markaðshlutdeild innlendra vara í mjólkurdufti og ostum, líklega einnig í vinnsluvörum eins og t.d. G-vörum og jógúrt. Í ljósi þess hversu hátt hlutfall íslenskrar mjólkurframleiðslu fer til notenda sem ostur og duft eða 46,2 % ,  er ljóst að hér geta áhrifin af hugsanlegri inngöngu Íslands í ESB orðið hvað mest fyrir íslenska nautgriparækt og íslenskan landbúnað. Ógerlegt er að fullyrða af nákvæmni hversu mikill markaðssamdrátturinn yrði en áætlað hefur verið að hlutdeild innlendra vara gæti minnkað um 25 til 50% ef til óvarinnar samkeppni kæmi við innfluttar mjólkurvörur. Fullyrða má að tekjusamdrátturinn yrði meiri en markaðssamdrátturinn. Sá tekjusamdráttur mun bitna á mjólkuriðnaðinum sem minni tekjur frá markaðnum og koma síðan strax fram sem lægri greiðslugeta til kúabænda fyrir innlagða mjólk. Því eru hagsmunir mjólkurframleiðenda og mjólkurvinnslu mjög samtvinnaðir og ljóst að mjög erfið staða mjólkurvinnslunnar kemur til viðbótar við aðra erfiðleika sem mjólkurframleiðendur þurfa að glíma við. Svo sem hér kemur fram er það afnám verndartollanna sem er megin áhrifavaldurinn til hins verra fyrir mjólkurframleiðslu og mjólkurvinnslu á Íslandi ef  landið gengi í ESB.
 Hér gildir það sama og varðandi opinbera stuðninginn; Ef til aðildarviðræðna kæmi, þá  skiptir mjög miklu máli hvaða samningsmarkmið yrðu sett og hvað næðist fram.

 

6. Byggðalegar afleiðingar samdráttar í mjólkurframleiðslu:
Ljóst má vera að ef framleiðsla dregst saman á bilinu 25 til 50%, þá mun það ekki gerast sem hlutfallslegur samdráttur hjá öllum mjólkurframleiðendum. Það er  óhjákvæmilegt að mjólkurframleiðsla mun leggjast af á mörgum þeirra svæða þar sem hún er nú stunduð, með mjög alvarlegum afleiðingum fyrir byggð á viðkomandi svæðum.


7. Rekstrarleg og efnahagsleg staða:
 Fyrir liggur að afkoma mjólkuriðnaðar á Íslandi hefur verið óviðunandi sl. ár og hefur verið gengið á eigin fé þrátt fyrir miklar hagræðingaraðgerðir. Afkoma kúabænda var erfið sl. ár en þar hafa óeðlilegar sveiflur á fjármagnsliðum mikil áhrif. Það sem skiptir mestu í þessu samhengi er að hvorki mjólkurframleiðendur né heldur mjólkuriðnaður geta haldið áfram rekstri við miklu lakari rekstrarskilyrði en nú eru. Veltuhraði fjármagns í mjólkurframleiðslu er lítill og fjárbinding á framleidda einingu afar mikil. Greinin er því sérstaklega viðkvæm fyrir miklum breytingum í rekstrarforsendum.

 

8. Smásöluverslunin
 Fyrir liggur að íslenski markaðurinn er lítill og mikil samþjöppun er í smásöluversluninni þar sem þrjár verslunarkeðjur eru með ca. 90 % markaðarins. Telja má fullvíst að ef Ísland gengi í ESB, þá myndu smásölukeðjurnar sjálfar flytja inn þær mjólkurvörur sem þær teldu henta og hafa alla möguleika á að stjórna aðgengi neytenda að mjólkurvörum. Því er ógerlegt að fullyrða hvaða íslenskar mjólkurvörur stæðu neytendum til boða, eða hvort neytendur nytu lægra vöruverðs þrátt fyrir innflutning.


 9. Breytingar á ESB:
Á síðustu árum hafa orðið miklar breytingar á ESB og landbúnaðarstefnu þess, öruggt má telja að þær breytingar haldi áfram. Þetta er nauðsynlegt að hafa í huga við mat á áhrifum hugsanlegrar aðildar Íslands að sambandinu. Það er erfitt og flókið að meta áhrif aðildar við núverandi aðstæður, ógerlegt að meta hvaða áhrif breytingar innan ESB myndu hafa til framtíðar litið.

 

10. Heildstætt hagsmunamat
Mikið skortir á að fyrir liggi heildstætt mat á hagsmunum Íslands þar sem reynt væri að varpa ljósi á heildaráhrif þess fyrir atvinnugreinar og einstaklinga ef Ísland gengi í ESB. Nauðsynlegt er að slíkt mat fari fram áður en sótt er um aðild því öll rök benda til þess að aðild hefði í för með sér miklar og óafturkræfar breytingar á íslensku atvinnulífi, með afleiðingum sem ekki hafa verið metnar.


 Með hliðsjón af framansögðu er ljóst að það hefði í för með sér grundvallarbreytingu til hins verra fyrir íslenska nautgriparækt og íslenska mjólkurvinnslu ef Ísland gengi í ESB. Samningaviðræður um aðild hljóta óhjákvæmilega að  skapa óvissu um stöðu og framtíð atvinnugreinarinnar. Því er ítrekuð sú sameiginlega niðurstaða Landssambands kúabænda og Samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnaði, að leggja til við Alþingi að það hafni umræddum þingsályktunartillögum.

 

Vegna hinna ríku hagsmuna sem greinin hefur af málinu, leggja samtökin áherslu á að fylgja umsögninni eftir við utanríkismálanefnd.

 

Virðingarfyllst,

 

Sigurður Loftsson                                         
formaður Landssambands kúabænda              

 

Magnús Ólafsson

formaður Samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnaði