
Umsögn LK við frumvarpsdrögum um endurskoðun samkeppnisstöðu mjólkuriðnaðarins
20.03.2017
Í byrjun marsmánaðar birti landbúnaðarráðherra drög að frumvarpi um endurskoðun á samkeppnisumhverfi mjólkuriðnaðarins á vef ráðuneytisins.
Landssamband kúabænda hefur sent frá sér umsögn um frumvarpsdrögin þar sem þrjú atriði eru gagnrýnd: verðtilfærsla milli tiltekinna afurða verði óheimil, samkomulag og verkaskipting milli mjólkursamlaga verði óheimil og að málið fái ekki að fara þann feril sem það var sett í við afgreiðslu búvörusamninga, það er í gegnum samráðshóp um endurskoðun búvörusamninga.
Ef afurðastöðvum er ekki heimilt að gera samninga sín á milli um verðtilfærslu milli tiltekinna afurða hefur það óhjákvæmilega í för með sér að heildsöluverð þeirra afurða sem hafa litla eða enga framlegð, þ.e. drykkjarmjólk, brauðostur, smjör og duft (nýmjólkur- og undanrennu-) mun þurfa að hækka verulega til að svara framleiðslukostnaði, sem skilar sér beint út í verðlag til neytenda. Ýmsar þessara vara eru mikilvæg hráefni fyrir aðrar matvörur sem framleiddar eru hér á landi og því ljóst að verðhækkun á þeim skerðir samkeppnishæfni þeirra matvara við sambærilegar innfluttar vörur. Einnig bendir LK á að verðlag mjólkurvara hefur bein áhrif á vísitölu neysluverðs og þar með hag almennings í landinu, til að mynda þegar litið er til verðtryggðra húsnæðislána.
Í frumvarpsdrögunum er einnig lagt til að afurðastöðvum í mjólkuriðnaði verði ekki lengur heimilt að sameinast, gera með sér samkomulag um verkaskiptingu milli mjólkursamlaga að því er varðar framleiðslu einstakra mjólkurvara og hafa með sér annars konar samstarf til þess að halda niðri kostnaði við framleiðslu, geymslu og dreifingu mjólkurafurða. Þessu leggst LK eindregið gegn og telur í varhugavert að fella eina grein búvörulaga úr gildi án þess að taka búvörulögin til heildstæðrar endurskoðunar á sama tíma. Með samvinnu, sérhæfingu og fækkun mjólkurvinnslna úr 17 árið 1990 niður í 5 árið 2016, hefur náðst fram töluverð kostnaðarlækkun sem hefur skilað sér áfram til neytenda og bænda. Þessi árangur sem við sjáum í dag af samstarfi afurðastöðvanna hefði ekki náðst án heimildar til sérhæfingar og verkaskiptingar þeirra á milli.
Landssamband kúabænda leggst gegn því að frumvarpið verði samþykkt og leggur þunga áherslu á að málið verði unnið innan samráðshóps um endurskoðun búvörusamninga, líkt og kveðið er á um í nefndaráliti meirihluta atvinnuveganefndar um frumvarp til laga um breytingu á búvörulögum, búnaðarlögum og tollalögum, en þar segir að meðal þeirra úrlausnarefna sem samráðshópurinn skal taka fyrir er eftirfarandi:
„7. Samkeppnismál og starfsumhverfi.
Mótað verði með hvaða hætti samkeppnislög gildi um mjólkuriðnað og skilgreint verði hvaða breytingar þurfi að koma til í söfnun og dreifingu mjólkurafurða til þess að svo megi verða án þess að glata þeim jöfnunarmarkmiðum sem felast í núverandi fyrirkomulagi. Einnig verði rýnt í starfsumhverfi afurðastöðva með tilliti til staðsetningar og mikilvægis fyrir þau byggðalög sem þau starfa í.“
Af framangreindu er ljóst að endurskoðun á samkeppnisumhverfi mjólkuriðnaðarins á heima innan samráðshóps um endurskoðun búvörusamninga, og fylgi þar með því ferli sem samþykkt var að málið færi í við afgreiðslu laga um breytingu á búvörulögum, búnaðarlögum, tollalögum og lögum um velferð dýra þann 13. september 2016.