Um BÍ
Búgreinadeildir
Málaflokkar
Til baka
Um Alifuglabændur
Upplýsingar
Kolefnisspor
Til baka
Til baka
Um Hross BÍ
Fræðsla
FHB
Til baka
Um NautBÍ
Upplýsingar
LK
Til baka
Sauðfjárbændur
Upplýsingar
Til baka
Starfið
Stjórnsýsla
Til baka

Umsögn LK vegna draga að breytingum á reglugerð um velferð nautgripa

22.06.2021

Drög að breytingum á reglugerð um velferð nautgripa var kynnt á samráðsgátt stjórnvalda fyrr í mánuðinum en þar gefst öllum tækifæri til að senda inn umsagnir. Breytingartillögur voru  „byggðar á reynslu af framkvæmd eftirlits Matvælastofnunar og bænda sem starfa á grundvelli reglugerðarinnar.“ samkvæmt kynningartexta með málinu.

Helstu breytingar sem lagðar eru til á gildandi regluverki lúta að bættri aðstöðu fyrir nautgripi og skýrara orðalagi ákvæða reglugerðarinnar. Gerð er tillaga að því að fella brott þá skyldu að í fjósum sem byggð eru fyrir gildistöku reglugerðarinnar skuli vera burðarstía. Að mati Matvælastofnunar er ekki þörf á að í slíkum fjósum sé burðarstía þar sem kýrnar beri á básunum. Tekur Landssamband kúabænda undir þau sjónarmið í umsögn sinni um málið.

Eldvarnir, útivist og skýli

Þá er lagt til að við reglugerðina bætist ákvæði um eldvarnir en að mati LK á slíkt ákvæði ekki heima í velferðarreglugerð nautgripa enda heyra eldvarnir undir byggingarreglugerð nr.112/2012 sem heyrir undir umhverfis- og auðlindaráðuneyti. Matvælastofnun (MAST) hefur eftirlit með framkvæmd reglugerðarinnar um velferð nautgripa og þetta ákvæði þýddi því í raun að MAST yrði að hafa eftirlit með fullnægjandi eldvörnum. Það fellur tæpast undir sérsvið MAST og því óljóst hvernig stofnunin á að geta sinnt þessu eftirliti. Er því lagt til að þetta ákvæði fari út.

Með breytingunum er skýrar kveðið á um að allir nautgripir „sem ekki eru fæddir á því árinu komist í hagabeit í að minnsta kosti 8 vikur á tímabilinu frá 15. maí til 15. október“. Í umsögn LK um málið segir að „Almennt er LK fylgjandi slíku fyrirkomulagi en aldur kálfanna er þó áhyggjuefni. Fyrstu 12 mánuðirnir eru þeir viðkvæmustu á vaxtarskeiði kálfa og ljóst er að kálfar sem að fæðast t.d. í nóvember og desember eru ansi ungir næsta sumar þó ekki séu þeir fæddir á því ári. Umfangsmikið tap á vexti, t.d. með brottfalli kjarnfóðurs, getur átt sér stað á þessu tímabili og því telja samtökin að heppilegra orðalag væri að um væri að ræða alla nautgripi sem náð hafa 12 mánaða aldri.“

Þá er einnig gert ráð fyrir að útiskjól fyrir gripi hafi að minnsta kosti 3 veggi og þak. Þar benda samtökin á að í það minnsta þarf að skoða fylgjandi kvaðir nánar til að tryggja að það verði ekki of íþyngjandi fyrir bændur að koma sér upp slíkri aðstöðu. Þá er orðalag ákvæðisins með þeim hætti að mögulegt væri að túlka það sem svo að braggar sem víða eru notaðir í þessum tilgangi væru óheimilir.

Var umsögn Landssambands kúabænda sú eina sem send var inn vegna málsins áður en frestur rann út í gær en Bændasamtök Íslands hafa sótt um frest til 28. júní nk.

Markmið Samráðsgáttarinnar er að auka gagnsæi og möguleika almennings og hagsmunaaðila á þátttöku í stefnumótun, reglusetningu og ákvarðanatöku opinberra aðila. Tekið skal fram að til viðbótar við samráðsgáttina geta verið annars konar samráðsferlar, svo sem þátttaka helstu hagsmunaaðila í nefndarstarfi eða sérstakt boð til þeirra um umsögn.