Beint í efni

Umsögn LK um matvælafrumvarpið

03.06.2008

Eins og alþjóð veit hefur afgreiðslu á svokölluðu matvælafrumvarpi verið frestað til hausts. Hér að neðan er að finna umsögn Landssambands kúabænda til Sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar Alþingis, sem send var nefndinni 6. maí sl.

Nefndasvið Alþingis
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík

 

Reykjavík 6. maí 2008


EFNI: Beiðni um umsögn Landssambands kúabænda um þskj. 825 — 524. mál. Frumvarp til laga um breytingar á ýmsum lögum vegna endurskoðunar á undanþágum frá I. kafla I. viðauka við EES-samninginn og innleiðingar á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 178/2002 frá 28. janúar 2002 auk afleiddra gerða. Lagt fyrir Alþingi á 135. löggjafarþingi 2007–2008.


Stjórn Landssambands kúabænda leggur áherslu á eftirfarandi vegna málsins:


1. Stjórnin tekur undir það sjónarmið sem fram kemur í umsögn Bændasamtaka Íslands og fleiri aðila, að afgreiðslu málsins verð frestað.

 

2.  Greinilegt er að mjög hefur skort á að stjórnvöld hefðu nægilegt samráð við hagsmunaaðila í landbúnaði í tengslum við þetta mál. Snýr það bæði að undirbúningi viðræðna við ESB og ekki síður að undirbúningi þess frumvarps sem nú liggur fyrir sem þingskjal 825. Þetta vinnulag stjórnvalda verður átelja.

 

3. Frumvarpið felur í sér að heimilt verður í síðasta lagi 27. október 2009, að flytja inn ýmsar vörur sem óheimilt hefur verið áratugum saman að flytja inn, svo sem hrátt kjöt og vörur úr því, ógerilsneidda mjólk og vörur úr henni sem og hrá egg. Stjórnin leggur mikla áherslu á, að áður en frumvarpið verður lögfest, verði unnin greining á líklegum áhrifum þessara róttæku breytinga.  Komi það í ljós að samþykkt frumvarpsins hafi í för með sér mikla röskun á einhverjum sviðum, hlýtur að koma til einhverra mótvægisaðgerða af hálfu stjórnvalda.

 

4. Í III. kafla frumvarpsins er fjallað er fjallað um breytingar á lögum um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr, lög nr. 66/1998 með síðari breytingum. Í þeim breytingum felst að umdæmum héraðsdýralækna er fækkað úr 16 í 6 og lögfest sú skipan að héraðsdýralæknar sinni aðeins eftirlitsstörfum. Þá er vaktsvæðum fækkað úr 15 í 10 og skipulög vaktþjónusta lögð niður í Gullbringu- og Kjósarumdæmi, Skagafirði, Eyjafirði, Rangárvallasýslu og Árnessýslu. Mjög skiptar skoðanir virðast um það hvort nauðsynlegt sé að aðskilja eftirlitsstörf og þjónustustörf dýralækna með þeim hætti sem lagt er til í frumvarpinu. Þá er það alveg ljóst, m.a. af skýringum með 36. grein að það er séríslensk pólitísk ákvörðun að færa opinber fjárframlög frá þjónustu við dýr og dýraeigendur, yfir í opinbert eftirlit með því að leggja niður vaktþjónustu í Gullbringu- og Kjósarumdæmi, Skagafirði, Eyjafirði, Rangárvallasýslu og Árnessýslu. Stjórn LK lýsir sig andvíga þessum áformum og tekur undir sjónarmið sem fram hafa komið hjá stjórn Dýralæknafélags Íslands um þetta mál.

 

5. Með frumvarpinu er ætlunin að að opna fyrir innflutning á hráu kjöti og vörum úr því, sem og ógerilsneiddri mjólk og vörum úr henni, ásamt því að breyta eftirlitskerfi fyrir framleiðslu, vinnslu og sölu matvæla. Frumvarpið er umfangsmikið og með samþykkt þess yrði Íslandi skylt að innleiða fjölda evrópskra reglugerða sem hefðu áhrif á eftirlit með framleiðslu og vinnslu mjólkur. Fjölmörgum spurningum er ósvarað um tengingu þessara reglugerða við núgildandi stjórnvaldsfyrirmæli, bæði hvað varðar tæknilega framkvæmd og kostnað.