Beint í efni

Umsögn BÍ um frumvarp til breytinga á búvörulögum

12.08.2010

Bændasamtök Íslands hafa sent frá sér umsögn til nefndasviðs Alþingis vegna frumvarps um breytingar á lögum nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum, á 138. löggjafarþingi, þskj. 1284 – 662. mál.

Frumvarpið barst Bændasamtökum Íslands til umsagnar með bréfi frá nefndasviði Alþingis, dags. 30. júní 2010 og hljóðar umsögnin svo:

I.
Bændasamtök Íslands vekja athygli á að mjólkurframleiðsla er ein meginstoð íslensks landbúnaðar. Fjöldi fólks byggir afkomu sína á framleiðslu og vinnslu mjólkur, og margir hafa fjárfest í framleiðslutækjum til þess að uppfylla kröfur um aðbúnað og gæði. Eins og víðar í landbúnaði er um að ræða langa framleiðsluferla og enn fremur er framleiðslan dreifð um landið, en það tryggir betur stöðugleika í greininni. Þá kröfu verður að gera til stjórnvalda, ekki síst eins og nú árar, að stöðugleiki sé tryggður eins og hægt er í löggjafarumhverfi greinarinnar þannig að réttmætar væntingar þeirra sem fjárfest hafa og eða vinna í greininni sér til lifibrauðs séu virtar.

II.
Með frumvarpinu er ekki lögð fram nein eðlisbreyting á núgildandi lögum varðandi heimildir til þess að markaðssetja mjólk sem er framleidd utan greiðslumarks. Það er og verður áfram heimilt fyrir alla þá sem hafa leyfi til vinnslu á mjólk að hefja móttöku mjólkur, sem framleidd er innan greiðslumarks, og markaðssetja afurðir. Með frumvarpinu er hins vegar lagt til að ákvæði um óheimila markaðssetningu mjólkur og álagningu dagsekta verði skýrð og einfölduð. Mat BÍ er að rétt sé að úrræði séu fyrir hendi, þessi eða önnur, til þess að framfylgja gildandi lögum.

Gildandi framleiðslustjórnunarkerfi hefur verið við lýði í langan tíma en það tekur mið af neyslu innanlands og umframframleiðslu skal samkvæmt því flytja á erlendan markað. Þrátt fyrir slík ákvæði getur framkvæmdanefnd búvörusamninga, undir vissum kringumstæðum, heimilað markaðssetningu á mjólk sem framleidd er utan greiðslumarks á innlandsmarkað. Þessi ákvæði standa óbreytt.

Lögin eru að mati Bændasamtaka Íslands að þessu leyti skýr en þau telja fram komnar tillögur um breytingar til bóta.


III.
Bændasamtök Íslands benda á að tillögur í frumvarpinu sem liðka fyrir heimavinnslu mjólkur beint frá býli fela í sér breytingar sem verða að teljast verulegar. Með breytingum þessum er á einfaldan hátt komið til móts við þá sem vilja fjölga atvinnutækifærum sveitanna með því að byggja upp lítil nýsköpunarfyrirtæki heima á bæjunum.

IV.
Samkvæmt framangreindu mæla Bændasamtök Íslands með samþykkt frumvarpsins í núverandi mynd. Verði þess óskað eru fulltrúar samtakanna boðnir og búnir til þess að koma á fund sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar.