Um BÍ
Búgreinadeildir
Málaflokkar
Til baka
Um Alifuglabændur
Upplýsingar
Kolefnisspor
Til baka
Til baka
Um Hross BÍ
Fræðsla
FHB
Til baka
Um NautBÍ
Upplýsingar
LK
Til baka
Sauðfjárbændur
Upplýsingar
Til baka
Starfið
Stjórnsýsla
Til baka

Umsagnir um frumvarpsdrög landbúnaðarráðherra

22.03.2017

Bændasamtökin hafa sent frá sér umsögn vegna draga að frumvarpi landbúnaðarráðherra til laga um breytingu á búvörulögum og búnaðarlögum. Niðurstaða BÍ er að frumvarpsdrögin feli í sér verulegar breytingar á rekstrarumhverfi mjólkuriðnaðarins og leggjast eindregið gegn því að frumvarpið verði lagt fram á Alþingi í núverandi mynd. Samtökin gera ekki athugasemdir við 1., 3., 4., 5., 7. og 10. gr. enda er tilgangur þeirra að hrinda í framkvæmd breytingum er samþykktar voru á Alþingi við afgreiðslu búvörusamninga í september 2016. 

Samtökin telja að það þurfi að hefja umfangsmikla undirbúnings- og greiningarvinnu áður en ráðist er í svo veigamiklar breytingar á rekstrarumhverfi mjólkuriðnaðarins. Með slíkri vinnu sé m.a. lagt mat á líklegar afleiðingar slíkra breytinga og gerðar áætlanir um framhaldið.

Í umsögn BÍ segir: „Verði frumvarpið að lögum er ljóst er að slík gögn og áætlanir liggja ekki fyrir með tilheyrandi óvissu. Málið varðar miklu um hagsmuni og lífsviðurværi bænda, annarra aðila sem vinna landbúnaðartengd störf sem og neytenda. Gera verður þá lágmarkskröfu að viðamiklar breytingar sem þessar séu vel ígrundaðar og að viðeigandi undirbúningsvinna hafi verið unnin, þegar kemur að innleiðingu þeirra. Þar að auki verður að teljast varasamt að fella umrædd ákvæði úr lögunum án þess að fram hafi farið heildarendurskoðun á lögunum.“

Eina færa leiðin að vísa málinu til samráðshóps um endurskoðun búvörusamninga

Bændasamtökin vilja enn fremur og leggja áherslu á að endurskoðun á samkeppnisumhverfi mjólkuriðnaðarins heyri undir málefni samráðshóps um endurskoðun búvörusamninga, sem þegar hefur verið skipaður og skal ljúka störfum fyrir lok árs 2018. Hópurinn var skipaður af þáverandi ráðherra þann 18. nóvember 2016, en núverandi ráðherra breytti síðan skipan hans þann 31. janúar 2017. Að því loknu tók hann til starfa og hefur þegar fundað tvisvar.

Bændasamtök Íslands telja einu leiðina í þessu máli að þeim atriðum sem gerðar hafa verið athugasemdir við verði vísað til umfjöllunar samráðshópsins eins og löggjafinn hefur mælt fyrir um. Það er í samræmi við vilja Alþingis við afgreiðslu málsins auk þess sem það er skynsamlegt að allt starfsumhverfið verði skoðað í heild en ekki einstakir þættir þess. Niðurstaða þeirrar vinnu getur nýst við endurskoðun búvörusamnings í nautgriparækt árið 2019.  Breytingarnar sem lagðar eru til eru það víðtækar að um þær getur engin sátt orðið nema sú leið verði farin.

Fleiri aðilar hafa sent umsagnir en ráðuneytið veitti afar stuttan skilafrest, eða aðeins 10 daga. Bændasamtök Íslands óskuðu eftir fresti til þess að skila umsögn um frumvarpsdrögin með tölvubréfi til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, dags. 15. mars, en þeirri beiðni var hafnað með vísan til þess að tími væri naumur því síðasti framlagningardagur þingmála á Alþingi væri 31. mars nk.

Ítarefni:
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið: Frumvarp um endurskoðun á samkeppnisstöðu mjólkuriðnaðarins

Umsögn Bændasamtaka Íslands – pdf

Umsögn Samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnaði – pdf

Umsögn Landssambands kúabænda – vefsíða