
Samráði um frystiskyldufrumvarp lýkur í dag
06.03.2019
Frumvarp landbúnaðarráðherra sem snýr að því að heimila innflutning á ófrystu kjöti frá öðrum ríkjum EES og afnema þannig skilyrði fyrir innflutningi á tilteknum landbúnaðarafurðum innan EES er nú í samráðsgátt þar sem einstaklingum og lögaðilum gefst tækifæri til að senda inn umsagnir. Rennur umsagnarfrestur út á miðnætti í kvöld.
Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að heimilaður verði innflutningur á ófrystu hráu kjöti og ógerilsneyddum eggjum. Málið hefur verið mikið á milli tannanna á fólki enda er frystiskyldan mikilvægur liður í sóttvörnum Íslands til verndar bæði heilsu búfjár og lýðheilsu manna. Helstu tveir kostir frystiskyldu á hráu kjöti eru þeir að hún annars vegar veitir okkur 30 daga biðtíma sem getur veitt okkur ómetanlega vörn gegn því að sjúkdómar eða sýkt kjöt berist til landsins og hins vegar að frysting drepur yfir 90% af kampýlóbakter, sem er algengasti valdur matarsýkinga í Evrópusambandinu, sem hefur ekki talið það „efnahagslega gerlegt“ að taka á vandanum á sama hátt og hér er gert þrátt fyrir að kostnaðurinn fyrir heilbrigðiskerfið og vegna vinnutaps innan ESB sé metinn á 2,4 milljarða evra á hverju ári.
Meirihluti landsmanna andvígur slökun á reglum
Rúmur þriðjungur landsmanna, eða 34,4 prósent er mjög andvígur því að slakað verði á reglum um inn- flutt matvæli og tæp 15 prósent til viðbótar frekar andvíg, samkvæmt könnun sem Zenter rannsóknir unnu fyrir Fréttablaðið og greint var frá í gær. Alls segjast því 52 prósent andvíg tilslökun slíkra reglna en rúm 32 prósent ýmist mjög eða frekar fylgjandi henni.
Tekjutap nautakjötsframleiðslunnar 500-650 milljónir króna á ári
Í skýrslu sem Deloitte vann fyrir Bændasamtökin í maí 2018 kemur fram að tekjutap íslenskrar nautakjötsframleiðslu er áætlað 500-650 milljónir króna á ársgrundvelli eða 16-21% af framleiðsluvirði ársins 2016, verði frystiskyldan afnumin. Er það byggt á tveimur sviðsmyndum, annars vegar ef verðlag á innlendum afurðum þyrfti að lækka til að keppa við innflutning á lægri verðum og hins vegar ef hlutfall innflutnings af heildarneyslu á Íslandi breyttist í sama hlutfall og á öðrum Norðurlöndum (Danmörk, Noregur, Svíþjóð, Finnland), á kostnað innlendrar framleiðslu. Er nokkuð ljóst að ef ekki verður ráðist í verulegar mótvægisaðgerðir mun afnám frystiskyldunnar verða ansi þungt högg fyrir greinina.
Þær mótvægisaðgerðir sem kynntar hafa verið vegna frumvarpsins og ætlað er að efla matvælaöryggi, tryggja vernd búfjárstofna og bæta samkeppnisstöðu innlendrar matvælaframleiðslu eru eftirfarandi:
Ráðuneytið hefur sett upp sérstaka upplýsingasíðu um málið þar sem hægt er að nálgast frekari gögn.