Umframmjólk 2007/2008
29.07.2007
Nú liggur fyrir að Mjólkursamsalan ætlar að greiða 27 krónur fyrir hvern lítra umframmjólkur sem til þeirra berst á næsta verðlagsári. Í bréfi félagsins er gerð grein fyrir þeim útflutningsverkefnum sem eru í gangi eða fyrirhuguð. Síðan segir ,,Markmið allra þessara verkefna er að byggja upp markaði sem standa undir sambærilegu verði og innanlandsmarkaðurinn á mjólkurverði til bænda“.
Það er mjög gott að þessar upplýsingar um verðið liggja fyrir áður en verðlagsárið hefst og nú þurfa þeir sem framleitt hafa umfram greiðslumark á þessu verðlagsári og hafa til þess alla möguleika á næsta verðlagsári, að hugsa sinn gang. Þeir eiga þrjá kosti í stöðunni:
1. Framleiða umframmjólk fyrir þetta verð.
2. Kaupa greiðslumark fyrir sem mest af sinni framleiðslu.
3. Draga úr framleiðslunni niður að eigin greiðslumarki.
Það er ólíklegt að margir séu spenntir fyrir leið 3. Fyrir flesta sem hafa tök á að framleiða umfram eigið greiðslumark er þetta síðasti kostur. Þá standa framleiðendur frammi fyrir vali milli leiða 1 og 2. Þessar 27 krónur fyrir hvern lítra eru um 56 % af núverandi afurðastöðvaverði. Það er ólíklegt að framleiðsla fyrir þetta verð skili viðunandi launum. Því er líklegt að áhugi á greiðslumarkskaupum muni vaxa og verð á greiðslumarki fari hækkandi. Vextir hafa hins vegar hækkað óheyrilega síðustu mánuði og það vinnur gegn hækkun á verði greiðslumarks.
Það veldur vissulega nokkrum vonbrigðum að Mjólkursamsalan skuli ekki treysta sér til að greiða meira en fyrrnefndar 27 kr/ltr. fyrir umframmjólkina á næsta verðlagsári. Þó ber að hafa í huga að útflutningurinn er á nokkru tilraunastigi ennþá. Spurningin er því þessi: Hvenær er líklegt að Mjólkursamsalan nái því yfirlýsta markmiði ,,að byggja upp markaði sem standa undir sambærilegu verði og innanlandsmarkaðurinn“ ? Er líklegt að það gerist eftir 1 ár, 3 ár, 5 ár ? Svar við þessari spurningu hefur bein áhrif á það hvernig skynsamlegast er fyrir bændur að bregðast við núverandi stöðu.
Ferjubakka II 26.7.2007